Yfirgaf fimm ketti í leiguhúsnæði

Læða og fjórir kettlingar voru nýlega skilin eftir í leiguhúsnæði í Lyngholti í Keflavík. Eigandi kattanna hafði flutt úr íbúðinni og sá sér greinilega ekki fært að hafa kettina áfram og kaus því að skilja þá eftir. Kettirnir fimm voru sendir í Kattholt þar sem starfsmenn tóku á móti þeim.

Kattholti berast daglega kettir sem eiga ekki í nein hús að venda. Stundum hefur fólk fundið kettina sem hafa verið á vergangi en stundum hafa dýrin verið skilin eftir í kassa utandyra. Að sögn Halldóru Bjarkar Ragnarsdóttur, formanns Kattavinafélags Íslands, er misjafnt hvað liggur að baki því að fólk skilur dýrin eftir, en oft sé ákvörðunin um að fá gæludýr á heimilið tekin í fljótfærni.

Sumir dvelja mánuðum saman í Kattholti

Á vef Kattholts er að finna myndir af öllum þeim köttum sem búa þar. Þegar köttur kemur í Kattholt hefur eigandi sjö daga til að vitja hans en eftir það vinnur starfsfólkið í því að finna dýrinu nýtt heimili. Hafi einhver áhuga á því að taka að sér munaðarlausan kött er hægt að nálgast upplýsingar um dýrin á vefnum.

Sumir kattanna stoppa ekki lengi og fá fljótlega nýtt heimili, en aðrir dvelja mánuðum saman í Kattholti. „Oft er erfiðara fyrir fullorðnar kisu að fá heimili,“ segir Halldóra. „Sumir þeirra dvelja hér mánuðum saman og verða jafnvel veikir og þunglyndir en aðrir spjara sig vel.

Kettirnir eru oft hræddir þegar þeir koma fyrst,“ segir Halldóra, en þeir taka yfirleitt fljótt við sér og njóta þess að leika við hina kettina. „Samkomulagið milli þeirra er yfirleitt mjög gott.“ Um fimmtíu kettir geta dvalið á staðnum hverju sinni og er þrifið hjá þeim á hverjum degi og þeim gefið að éta. Þá á hver köttur sitt búr.

Kötturinn kom í leitirnar eftir sjö ár

„Það kemur mikið af köttum inn á sumrin og minna fer út,“ segir Halldóra. Á haustin koma fleiri og vilja taka að sér kött. „Þá er fólk hætt í sumarfríi og fastir liðir teknir við.“ Að sögn Halldóru eru starfsmenn Kattholts alltaf ánægðir þegar köttur fær nýtt heimili, en staðreyndin sé sú að hvert pláss fyllist fljótlega aftur.

Kattholt tekur aðeins við köttum sem eru týndir og köttum sem hafa verið yfirgefnir. Sjái fólk sér ekki fært að eiga kettina lengur verði það að gera aðrar ráðstafanir. Meðal annars er hægt að auglýsa kettina á vef Kattholts.

Halldóra segir að nokkuð sé um það að týndir kettir komi í leitirnar, jafnvel vikum, mánuðum eða árum eftir að þeir týnast. Hún man til að mynda eftir tilviki þar sem köttur kom í leitirnar eftir að hafa verið týndur í sjö ár. Oft hafa þeir fengið nýtt heimili í millitíðinni og hafi það þess vegna ágætt. „Það hefur mikið að segja að örmerkja kettina,“ segir Halldóra. Séu kettirnir örmerktir er auðveldara að koma þeim í réttar hendur, komi þeir í Kattholt.

Í Kattholti er einnig hótelrekstur þar sem um fimmtíu kettir geta dvalið hverju sinni. Þar dvelja þeir í góðu yfirlæti og eru yfirleitt margir kettir um jól, áramót, sumar og páska. Félagsmenn, einstaklingar og fyrirtæki styrkja starfsemi Kattholts og segir Halldóra að félagið taki alltaf vel á móti nýjum félagsmönnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert