Krabbameinslæknar íhuga uppsagnir

mbl.is/ÞÖK

Krabbameinslæknar á Landspítalanum íhuga uppsagnir komi til skipulagsbreytinga sem þeir telja að verði til mikillar blóðtöku fyrir starfsemi deildarinnar.

Er þetta samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Þeir gagnrýna yfirstjórn spítalans fyrir tímasetningu breytinganna þegar staðan sé jafnslæm og nú.

Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir að mikið óöryggi sé meðal sjúklinga vegna þeirrar óvissu og manneklu sem nú ríkir; hvort hægt sé að treysta því að læknir þeirra verði til staðar. Þessi alvarlega staða sem nú er uppi var að sögn heimildarmanna fyrirsjáanleg í mars síðastliðnum en úrlausnir hafa hins vegar látið á sér standa.

Röð atburða undanfarna mánuði hefur orðið til þess að sérfræðingar íhuga nú stöðu sína. Sú ákvörðun að taka aðstoðar- og deildarlækna af krabbameinsdeildinni og sú staðreynd að yfirlæknir deildarinnar hætti störfum varð til þess að veikja deildina mjög og margir telja að ekki hafi verið brugðist nógu vel við þeim sviptingum.

Yfirvofandi skipulagsbreytingar á lyflækningadeild þar sem krabbameinslæknir mun mögulega sinna starfi yfirlæknis eru sagðar vera kornið sem fylli mælinn. Í staðinn fyrir að bregðast við ástandi sem er á hættumörkum og styrkja deildina þá sé farið í breytingar sem muni, að sögn heimildarmanna, auka álagið á sérfræðingum enn frekar.

Fimm til sex krabbameinslæknar starfa nú á spítalanum.

Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, segir enga ákvörðun hafa verið tekna hvað varðar skipulagsbreytingar á krabbameinsdeild og lyflækningasviði en vonast til þess að málin skýrist sem fyrst.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert