Bráðalausn á vanda bráðamóttöku ekki til

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, segir að bráðalausn á vanda bráðamóttökunnar fyrirfinnist ekki en á annan tug verkefna, sem beinist að því að betrumbæta íslenskt heilbrigðiskerfi, sé í gangi. 

Vandi bráðamót­töku komst aftur í há­mæli umræðunn­ar eft­ir að yf­ir­lækn­ir á Land­spít­ala greindi frá því að þar væri stór­slys í aðsigi. Í gær greindi RÚV frá því að maður sem þjáðist af krabba­meini hefði verið send­ur of snemma heim af bráðamót­töku og hefði í kjöl­farið lát­ist.

Svandís segist harma það sem þar átti sér stað. „Ég lýsi því um leið yfir að mér finnst ekkjan hafa sýnt mikinn kjark að koma fram með sína sögu en ég tjái mig ekki um þetta einstaka mál að öðru leyti.“

Segir útskriftarvandann minni

Már Kristjáns­son, yf­ir­lækn­ir smit­sjúk­dóma­lækn­inga á Land­spít­al­an­um, sagði í viðtali við Læknablaðið nýverið að síðastliðin þrjú ár hefði þeim sem leituðu til bráðamóttöku fjölgað gríðarlega. Ríkisstjórnin sem nú er við völd tók við fyrir rétt rúmum tveimur árum. Spurð hvort einhver tengsl séu á milli stjórnarskipta og vanda bráðamóttökunnar segir Svandís svo ekki vera.

„Ástæðurnar fyrir þessari fjölgun eru þrjár. Okkur fjölgar, við eldumst, ferðamönnum fjölgar og allt þetta eykur álag á bráðamóttöku sem er nú þegar undir miklu álagi. Ef við berum saman tölur 2018 og núna í dag þá sjáum við að það voru 53 sem lágu á bráðadeildum með færni- og heilsumat í desember 2018 en 40 í dag svo við getum sagt að útskriftarvandinn hafi minnkað á milli ára.“

Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis, sagði í viðtali við mbl.is í dag að heilbrigðiskerfið væri fjársvelt. Svandís segir að aukið fjármagn sé ekki eina lausnin. 

„Staðan er þannig að Landspítalinn er að reka sig á 65 til 70 milljörðum króna á ári. Það eru auðvitað gríðarlega stórar upphæðir og er Landspítalinn langstærsta ríkisstofnunin.“

Ísland leggur 8,3% af vergri lands­fram­leiðslu til heil­brigðis­kerf­is­ins á meðan …
Ísland leggur 8,3% af vergri lands­fram­leiðslu til heil­brigðis­kerf­is­ins á meðan ná­granna­lönd­in leggja 10-11% til þess. Meðaltal OECD-ríkj­anna er 8,8%. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar lykilstéttir

Svandís samsinnir því að mönnun heilbrigðiskerfisins sé vandamál en starfshópar vinni nú að því að leysa úr því vandamáli. Spurð hvort það þurfi þá ekki einfaldlega að greiða heilbrigðisstarfsfólki hærri laun segir Svandís:

„Það snertir kjarasamninga og ég vonast til þess að ná þeim saman. Það sem stendur út af samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum fengið eru kjarasamningar við vaktavinnufólk og við auðvitað vonum það besta í því. Þarna erum við að tala um þessar lykilstéttir sem bera heilbrigðisþjónustuna algjörlega uppi sem eru hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar.“

Eins og staðan er í dag leggur Ísland minni hluta af vergri landsframleiðslu til heilbrigðismála en nágrannalönd Íslands. Svandís segir að hún beiti sér áfram fyrir auknum fjárframlögum til heilbrigðiskerfisins en þau hafi hækkað í tíð sitjandi ríkisstjórnar. 

„Ég hef líka lagt mikla áherslu á að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga, það er að segja að almenningur borgi minna úr eigin vasa og fáttækt verði ekki til þess að fólk þurfi að neita sér um heilbrigðisþjónustu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert