Fjársvelt heilbrigðiskerfi pólitísk ákvörðun

Vandi bráðamóttökunnar er tilkominn vegna plássleysis á öðrum deildum, að …
Vandi bráðamóttökunnar er tilkominn vegna plássleysis á öðrum deildum, að sögn Helgu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vandi heilbrigðiskerfisins liggur ekki bara í bráðamóttöku heldur í heilbrigðiskerfinu öllu sem fær mun minna fjármagn en heilbrigðiskerfi annarra OECD-ríkja. Þetta segir Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður velferðarnefndar.

Vandi bráðamóttöku hefur aftur komist í hámæli umræðunnar eftir að yfirlæknir á Landspítala greindi frá því að þar væri stórslys í aðsigi.

Í gær greindi RÚV frá því að maður sem þjáðist af krabbameini hafi verið sendur of snemma heim af bráðamóttöku og hafi í kjölfarið látist. 

Helga Vala Helgadóttir, þingman Samfylkingarinnar.
Helga Vala Helgadóttir, þingman Samfylkingarinnar. mbl.is/Hari

Helga Vala segir að þær fréttir hafi í raun ekki komið henni í opna skjöldu miðað við það ástand sem ríki á bráðamóttöku. Yfirlæknirinn lýsti því þannig að legu­rými væru á göng­un­um, fólk væri veikt og ber­skjaldað og sýk­inga­varn­ir brostn­ar.

„Það er viðkvæmt að segja að þetta hafi ekki komið mér í opna skjöldu en það gerði það raun og veru ekki. Ég heyri hvað starfsfólkið er að segja og starfsfólkið er að lýsa hættuástandi og hefur gert það lengi,“ segir Helga.

Vandi bráðamóttökunnar skortur á rými annars staðar

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti nýverið lækkun á komugjaldi á heilsugæslu. Eitt af markmiðum lækkunarinnar er að fleiri leiti á heilsugæslu í stað bráðamóttöku og þannig leysist vandi bráðamóttöku að hluta. Helga segir að vissulega sé jákvætt að auka komur á heilsugæslu.

Hún bendir þó á að vandi bráðamóttöku sé í raun ekki sá að fólk leiti þangað að tilefnislausu enda starfi hjúkrunarfræðingur í móttökunni sem greinir strax hvort fólk sé þar að tilefnislausu. Vandinn er frekar sá að rými vantar fyrir veikt fólk á öðrum deildum, að sögn Helgu.

„Á bráðamóttöku liggur fárveikt fólk, langt leiddir krabbameinssjúklingar eða eldra fólk sem á að vera á öðrum deildum.“

Helga segir að mannsæmandi laun séu mikilvægur þáttur í að …
Helga segir að mannsæmandi laun séu mikilvægur þáttur í að leysa vandann. mbl.is/Kristinn Magnússon

Um 2% undir OECD-ríkjum

Helga bendir á að Ísland leggi 8,3% af vergri landsframleiðslu til heilbrigðiskerfisins á meðan nágrannalöndin leggi 10-11% til þess. Meðaltal OECD-ríkjanna er 8,8% og eru þar tekin með mörg mun fáttækari lönd en Ísland. 

„Samt erum við núna með aukið framlag til Landspítala vegna byggingar Landspítala. Það eru stjórnvöld sem taka ákvörðun um að hafa þetta svona, þetta er pólitísk ákvörðun.“

Helga segir að heilbrigðiskerfið í heild sinni sé fjársvelt og það sé ástæða vandans á bráðamóttöku. Á Landspítala séu laus rúm og lausar deildir en ekki starfsfólk til að sinna sjúklingum þar.

Vandi heilbrigðiskerfisins einskorðast ekki við Landspítalann.
Vandi heilbrigðiskerfisins einskorðast ekki við Landspítalann. mbl.is/Ómar Óskarsson

Mannsæmandi laun lausnin

Helga telur því að kerfið þurfi einfaldlega meiri fjármuni svo það geti borgað starfsfólki, sérstaklega hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum, mannsæmandi laun.

„Þótt birtingarmynd ástandsins sé nú á bráðamóttöku þá liggur vandinn ekki bara þar. Ástandið í heilbrigðiskerfinu er vegna þess að heilbrigðiskerfið er fjársvelt. Það þarf að setja aukið fjármagn á fleiri staði. Í heilbrigðisstofnanir úti á landi, í rekstur hjúkrunarheimila, það er ekki nóg að byggja húsin, það þarf að vera hægt að reka þau. Það er ekki tryggt í fjárlögum. Það er verið að hætta með þjónustu á vel staðsettum heilbrigðisstofnunum víða um land sem væri svo auðveldlega hægt að manna ef fjármagn fengist. Það myndi minnka álagið á Landspítala.“

mbl.is