Vorveður næstu daga en svo breytist veðrið

Það kólnar aðeins á landinu um helgina. Spákort Veðurstofu fyrir …
Það kólnar aðeins á landinu um helgina. Spákort Veðurstofu fyrir laugardag kl. 9. Kort/Veðurstofa Íslands

Afskaplega rólegt veður er fram undan. Skýjað með köflum, úrkomulaust nokkurn veginn á öllu landinu og hægur vindur verður næstu daga.

Þetta segir Birgir Örn Höskuldsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Einhverjir vordagar fram undan

Þegar líður á vikuna gerir Birgir ráð fyrir að það fari að kólna fyrir norðan. Áfram verður sæmilega milt sunnanlands en hann telur þó líklegt að það kólni þar um helgina.

„Næstu daga er vorveður, sérstaklega á suðurhluta landsins. Hitinn er oft að fara yfir tíu stig á daginn en svo er líklegt að það fari að kólna líka á Suðurlandi um helgina,“ segir Birgir.

Íbúar landsins ættu þó að fá nokkra góða daga, jafnvel þó sjáist mismikið til sólar verður veðrið skaplegt bætir hann við.

Mesta hættan af hlýindum að baki

Í apríl snjóaði tiltölulega mikið á Norðurlandi og fyrir vestan. Spurður hvort einhver hætta fylgi því að það hitni hratt á landinu segir Birgir alltaf einhverja hættu fylgja því.

Á Vestfjörðum hafa fallið að minnsta kosti tvö sæmilega stór krapaflóð. 

„Hættan ætti þó að fara minnkandi eftir því sem líður frá mestu hlýindunum sem voru um helgina.“

Veður­vef­ur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert