800 milljóna halli Landspítala

Verulegur rekstrarhalli hefur verið hjá Landspítalanum á fyrsta ársfjórðungi ársins.
Verulegur rekstrarhalli hefur verið hjá Landspítalanum á fyrsta ársfjórðungi ársins. mbl.is/Árni Sæberg

Landspítalinn heldur áfram að skila rekstrarhalla samkvæmt bráðabirgðauppgjöri fyrsta fjórðungs ársins, að því er fram kemur í starfsemisupplýsingum spítalans fyrir mars. Nemur rekstrarhallinn 801,9 milljónum króna, verði hallinn óbreyttur í öllum fjórðungum ársins mun hann nema 3,2 milljörðum á árinu.

Ljóst varð við uppgjör fyrsta ársfjórðungs á síðasta ári að spítalinn myndi skila verulegum halla og benti hálfsársuppgjör hans til þess að hallinn myndi verða 4,5 milljarðar króna, en heilsársuppgjör vegna 2019 hefur ekki enn verið birt. Kemur hallinn þrátt fyrir að framlög til spítalans hafi hækkað um 5,4 milljarða á árunum 2017 til 2020.

Samkvæmt bráðabirgðauppgjörinu er mesti hallinn á fyrsta ársfjórðungi 2020 undir liðnum „utan sviða“ þar sem hann nemur 290 milljónum króna sem er 153% umfram áætlun. Þar af skýra launagjöld 260,7 milljónir af hallanum utan sviða.

Tæplega 18 milljóna halli hefur verið í rekstri skrifstofu spítalans eða 2% yfir áætlun, 121,7 milljónir á meðferðarsviði eða 2,3% yfir áætlun, 199 milljónir á aðgerðasviði eða 2,9% yfir áætlun og 173 milljónir á þjónustusviði eða 4,5%.

Í heild skýra launagjöld megnið af rekstrarhalla Landspítala á tímabilinu eða 604 milljónir króna umfram áætlun. Á móti kemur að rekstrartekjur spítalans voru 57 milljónir umfram áætlun á fyrsta ársfjórðungi.

Áhrif veirunnar

Það að rekstrarkostnaður er umfram áætlun getur mögulega verið rakið til kórónuveirufaraldursins og þeirra ráðstafanna sem gripið hefur verið til vegna hans, en sú kostnaðargreining liggur ekki fyrir í þeim tölum sem spítalinn hefur birt. Tekið er þó fram að faraldurinn hafi haft veruleg áhrif á starfsemistölur.

Fram kemur í lykiltölum Landspítalans að fjöldi lega hafi á fyrsta ársfjórðungi verið 6.591 en var 7.008 á sama tímabili í fyrra og hefur því fækkað um 6% milli ára. Þá hefur meðalfjöldi inniliggjandi sjúklinga á dag verið 584 en var 624 í fyrra. Fjöldi legudaga á legudeildum og bráðamóttöku minnkaði um 5,1%, úr 58.140 í 55.173.

Landspítalinn hefur þurft að grípa til ýmissa ráðstafana vegna faraldursins.
Landspítalinn hefur þurft að grípa til ýmissa ráðstafana vegna faraldursins. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson.

Komum á bráðamóttöku spítalans fækkaði um 8,5% úr 23.261 í 21.290. Þá voru komur á göngudeildir 60.306 á tímabilinu sem eru 9,9% færri en á sama tíma í fyrra. Auk þess fækkaði komum á dagdeildir um 7,9% og voru þær 21.113 á fyrsta ársfjórðungi.

Vekur athygli að fjöldi fæðinga á spítalanum var 729 á fyrsta ársfjórðungi í fyrra, en var 790 á þessu ári og nemur aukningin 8,4% milli ára.

mbl.is