Merki Alþingis hefur fengið uppfærslu en breytingin er hluti af stærri andlitsupplyftingu fyrir myndrænt efni Alþingis sem kynnt var í síðustu viku.
Myndrænt einkenni Alþingis sem hannað er af Strik Studio var kynnt á opnunarhátíð Smiðju 14. september. Nýja merkið má nú þegar sjá á vef Alþingis og verður nýtt heildarútlit á öllu efni Alþingis innleitt í áföngum á næstu mánuðum, að því er fram kemur í tilkynningu á vef þingsins.
Verkefnið fólst m.a. í að uppfæra og skapa heildstætt einkenni sem sæmir Alþingi og þjónar starfseminni til lengri tíma. Nýtt merki átti að vera einfalt, stílhreint og taka mið af fjölbreyttri notkun og birtingarmyndum í ólíkum miðlum samtímans.
Lagt var upp með að nota áfram Alþingishúsið sem einkennismerki en endurteikna það í einfaldari mynd „svo það henti betur fjölbreyttri notkun samtímans,“ segir á vef þingsins.
Einkennislitirnir byggja á litum íslenska fánans en merkið er ýmist birt blátt á hvítum grunni eða hvítt á bláum grunni. Í tilkynningunni segir einnig að rauður grunnur verði notaður í ýmsu kynningarefni. Litapallettan sæki innblástur í innanhússliti Alþingis í bland við gull og silfur.
Letrið sem valið var í merkið og verður notað í ýmsu kynningarefni heitir Abacaxi og er hannað af Gunnari Vilhjálmssyni hjá Universal Thirst ásamt Gabríel Markan. Abacaxi sameinar hefðbundna og nútímalega þætti leturgerðar. Leturfjölskyldan er stór og læsileg og virkar bæði vel á prenti og á skjá.
Nýja merkið leysir af hólmi merki eftir grafíska hönnuðinn Þröst Magnússon, sem var fenginn til að teikna mynd af Alþingishúsinu fyrir sýningu sem sett var upp í tilefni af 50 ára afmæli lýðveldisins sumarið 1994.
Í framhaldinu leitaði forysta þingsins til Þrastar um að fá að nota teikninguna sem merki Alþingis. Fram að þeim tíma hafði merki Alþingis verið ríkisfáninn, tjúgufáni, sem þótti ekki hafa næga skírskotun í þjóðþingið umfram aðrar stofnanir ríkisvaldsins.
„Merki Þrastar var á margan hátt vel heppnað, hafði sterka skírskotun í stofnunina sem það táknar, var vel kynnt og hefur skapað sér sess. En vegna þess hve fíngert merkið er hentar það ekki að öllu leyti kröfum samtímans um smágerðar merkingar á rafrænu eða öðru formi,“ segir í tilkynningunni.
Þá hafi verið leitað til Þrastar um hvort hann væri tilbúinn að taka að sér að breyta merkinu til einföldunar. En hann hafi lokið störfum og studdi það að boðað yrði til samkeppni meðal hönnuða um nýtt merki Alþingis.
Alþingi gerði því samning við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs um ráðgjöf við verkefnið og að tillögu hennar var ákveðið að ráðast í lokað valferli. Skipuð var valnefnd til að velja hönnunarteymi til verksins.
Ákveðið var að ganga til samstarfs við hönnunarstofuna Strik Studio um endurhönnun myndræns einkennis Alþingis og hönnunarstaðal.
„Teyminu hjá Strik Studio, þeim Auði Albertsdóttur, Jakobi Hermanns, Snorra Eldjárn og Viktori Weisshappel, er þakkað fyrir vandaða vinnu og einstaklega gott samstarf.“