Skar höfuðleðrið af íslenskri konu

Íslensk kona á fimmtugsaldri lá á fjórðu viku á sjúkrahúsi …
Íslensk kona á fimmtugsaldri lá á fjórðu viku á sjúkrahúsi í Torrevieja eftir hrottalega líkamsárás á heimili sínu fyrir páska þar sem henni og sjö ára syni hennar var haldið nauðugum í tvo sólarhringa. Ljósmynd/Aðsend

„Ef ég á þig ekki fær enginn að eiga þig, þetta sagði hann við mig blákalt og oftar en einu sinni, þetta var orðinn grunntónninn í okkar samskiptum undir það síðasta,“ segir rúmlega fertug íslensk kona í samtali við mbl.is eftir áfall sem ef til vill verður ekki auðveldlega lýst með orðum.

Viðmælandanum í þessu viðtali var haldið nauðugum á heimili sínu í spænska sveitarfélaginu Orihuela Costa, nágrannabyggð Torrevieja og Alicante, í tvo sólarhringa, þriðjudag til skírdags fyrir páska, ásamt sjö ára gömlum syni sínum sem einnig mátti þola fólskulegt líkamlegt ofbeldi en auðnaðist að lokum að sleppa út úr íbúðinni þegar árásarmaðurinn lagði sig.

Eins og fram kemur hér fyrir neðan voru áverkar konunnar mjög alvarlegir og sér mbl.is ástæðu til að vara við myndefni sem viðtalinu fylgir.

Gat drengurinn gert konu í annarri íbúð í húsinu aðvart en sú hafði samband við lögreglu. Það er fyrrverandi kærasti konunnar, breskur ríkisborgari á sextugsaldri, sem er grunaður um verknaðinn og situr nú í gæsluvarðhaldi. Áttu þau í sambandi frá því í mars í fyrra og fram að áramótum. 

Að höfðu samráði við spænska lögfræðinga konunnar, sem annast munu réttargæslu hennar við meðferð refsimálsins fyrir spænskum dómstólum, kemur hún nafnlaust fram í þessu viðtali.

Fórnarlambið man lítið eftir fyrstu dögunum á sjúkrahúsinu, hún segir …
Fórnarlambið man lítið eftir fyrstu dögunum á sjúkrahúsinu, hún segir túlk á vegum lögreglunnar nánast hafa unnið kraftaverk með því að hvísla sífellt í eyra hennar og ná að lokum gegnum óminnismúrinn. Þá kom í ljós að hún átti barn sem komið hafði verið fyrir á fósturheimili eftir að lögreglan kom á vettvang. Ljósmynd/Aðsend

Bareflið líklega borðfótur

Fórnarlambinu var í fyrstu vart hugað líf, var hún með alvarlegan áverka á hvirfli og gekkst þegar undir tvær bráðaaðgerðir, á maga, vegna innvortis blæðinga, og höfði. Auk þess er hún með brotin rifbein, brákað kinnbein, mar víða um líkamann og óvíst er um batahorfur á vinstra auga. Vitað er að eggvopni var enn fremur beitt við atlöguna.

Þá rifnaði magi hennar fljótlega eftir komu á sjúkrahús í Torrevieja vegna alvarlegra innvortis áverka.

„Hann lamdi mig með einhverju barefli, ég held að það hafi verið borðfótur. Það eina sem ég man frá þessum tíma er að ég sá allt gegnum rauða slikju og ég heyrði alltaf fótatakið hans þegar hann gekk um íbúðina og bölvaði í sífellu. Það situr svo í mér,“ segir hún og röddin skelfur lítið eitt.

„Svo hlustaði ég á öskrin í syni mínum og vissi að ég gat ekkert gert til að hjálpa honum. Það var svo hryllileg tilhugsun. Og það var svo hann sem bjargaði okkur, hann var svo sterkur,“ segir Íslendingurinn og röddin brestur. Við tökum okkur stutt hlé.

Sonurinn er skammt undan og heilsar upp á blaðamann á meðan í símann, björt barnsröddin hljómar áhyggjulaus og full gleði þrátt fyrir það sem á undan er gengið. Þau mæðginin hafa bæði notið góðrar umönnunar og áfallahjálpar á vegum spænska heilbrigðiskerfisins, að sögn móðurinnar.

Konan þarfnaðist fjögurra og hálfs lítra af blóði eftir að …
Konan þarfnaðist fjögurra og hálfs lítra af blóði eftir að magi hennar rifnaði fljótlega eftir að hún kom á sjúkrahúsið. Svo mikla innvortis áverka hafði hún hlotið. Enn sem komið er getur hún aðeins neytt mjög léttrar fæðu, ávaxta og grænmetis, og hefur misst tuttugu kílógrömm frá því ráðist var á hana. Ljósmynd/Aðsend

Kraftaverk að lögreglan fann drenginn

Móðir drengsins hugaða þarfnaðist fjögurra og hálfs lítra blóðgjafar dagana eftir komuna á sjúkrahúsið og var að mestu meðvitundarlaus fyrstu dagana, páskahátíðina. Alls lá hún þar í þrjár og hálfa viku en var þó útskrifuð allt of snemma að mati spænsks heimilislæknis hennar.

„Það var kraftaverk að lögreglan fann út hvar sonur minn hafði verið vistaður, hún kom á sjúkrahúsið með yndislegan túlk sem einnig er lögfræðingur og starfar á lögmannsstofunni sem nú fer með málið mitt,“ segir konan frá, beðin að reyna að rifja upp fyrstu dagana á sjúkrahúsinu.

Þar sem lögregla kannaði ekki vegabréf hennar áður en vettvangur var yfirgefinn var syni hennar komið fyrir á heimili fyrir forsjárlaus börn og dvaldi hann þar nafnlaus í tíu daga þar til afi hans kom frá Íslandi og gat sýnt fram á hver drengurinn væri. Var hann þá vannærður og í miklu áfalli andlega auk þess að bera töluverða áverka á fótum og víðar.

Höfuðáverkinn með sýkingu fljótlega eftir komuna á sjúkrahúsið. Áverkarnir á …
Höfuðáverkinn með sýkingu fljótlega eftir komuna á sjúkrahúsið. Áverkarnir á líkama hennar eru mun fleiri og mbl.is greinir í samráði við viðmælandann ekki frá þeim öllum í þessu viðtali. Ljósmynd/Aðsend

Túlkurinn, kona sem var sannfærð um að hún næði sambandi við sjúklinginn, lét ekki deigan síga að sögn Íslendingsins.

„Hún hvíslaði í eyrað á mér „ertu þarna, ég þarf að tala við þig?“ aftur og aftur og þrátt fyrir að ég hefði ekki átt að geta tjáð mig neitt þarna miðað við ástand mitt hvíslaði ég bara á móti að þau yrðu að finna son minn. Það varð til þess að hann fannst á þessu munaðarleysingjaheimili og pabbi þurfti að koma út til að fá hann þaðan á löglegan hátt. Spánverjarnir eru mjög formlegir,“ segir hún frá.

Leitað í öllum bifreiðum

Aftur að deginum örlagaríka, skírdegi, þegar sonurinn komst út úr íbúð þeirra á meðan árásarmaðurinn svaf. Bretinn, sem nú situr í gæsluvarðhaldi, hafði forðað sér af vettvangi þegar lögregla og sjúkraflutningafólk komu á vettvang en lögregla brá skjótt við og lokaði öllum akstursleiðum á stóru svæði umhverfis heimili konunnar, meðal annars í nágrannabænum Torrevieja.

Var svo leitað í öllum bifreiðum og víðar, þar sem búist var við að grunaði hittist fyrir en fósturmóðir fórnarlambsins gat upplýst lögreglu um að hún hefði farið fram á nálgunarbann gagnvart nafngreindum breskum ríkisborgara. Þar með vissi lögreglan hvar hún átti að leita og fannst maðurinn og var þegar tekinn höndum á bar í Villamartin í Norður-Orihuela Costa örfáum klukkustundum eftir að aðgerðir lögreglu hófust.

„Ég veit ekki hvort ég fæ sjónina vinstra megin aftur …
„Ég veit ekki hvort ég fæ sjónina vinstra megin aftur og ég þarf að gangast undir fjölda aðgerða, ég er búin að missa tuttugu kíló og ég var ekki feit fyrir.“ Ljósmynd/Aðsend

En hvað gerist núna í máli þínu?

„Núna er ég undir stöðugu eftirliti lögreglu og er með árásarhnapp. Ég fæ íbúð frá öryggisgæslufyrirtæki næstu daga þar sem eru myndavélar um allt og öflugar læsingar. Ég verð undir miklu eftirliti, lögreglan óttast að vinir [grunaða] muni reyna að ná til mín eða sonar míns, hann er höfuðvitni saksóknara í málinu, hugsaðu þér það,“ segir konan og fær illa dulið geðshræringu sína.

Batahorfur? – Aðeins hægt að vona

Hvað snertir batahorfur fórnarlambsins er aðeins hægt að vona það besta. „Sjúkrahúsið útskrifaði mig með opið sár á höfðinu, heimilislæknirinn minn, hann [P...], er ekki par ánægður með það en hann hefur alveg tekið mig upp á arma sína,“ segir hún frá, æðruleysið uppmálað, þar sem hún hvílist á bráðabirgðaheimili þeirra sonarins, tiltölulega nýútskrifuð af sjúkrahúsinu.

„Ég veit ekki hvort ég fæ sjónina vinstra megin aftur og ég þarf að gangast undir fjölda aðgerða, ég er búin að missa tuttugu kíló og ég var ekki feit fyrir,“ segir konan og í fyrsta sinn í viðtalinu vottar fyrir hlátri þrátt fyrir allt sem á undan er gengið.

„Kemur aldrei fyrir mig“-heilkennið

Hún reiknar með að grunaður árásarmaður hljóti þungan dóm í spænsku réttarkerfi sem tekur harðar á ofbeldismálum en mörg Evrópulönd. Margir Íslendingar minnast Malaga-fangans svokallaða sem sat inni þar í borg mánuðum saman árið 1985, eftir að hafa veifað leikfangabyssu framan í lögregluþjóna í kjölfar þess er íslensk kona kærði hann fyrir að hafa brotist inn á hótelherbergi.

„Aðalatriðið er að fólkið í kringum mann sé tilbúið að …
„Aðalatriðið er að fólkið í kringum mann sé tilbúið að opna augun – oftast er fólk hreinlega drepið í svona málum hér á Spáni og mín skylda gagnvart samfélaginu er að vekja athygli fólks á hættulegum einstaklingum og ekki láta segja við sig endalaust „láttu ekki svona manneskja, þetta hlýtur að jafna sig,““ er sá boðskapur sem viðmælandinn vill deila með lesendum. Ljósmynd/Aðsend

„Maður hugsar alltaf að svona komi aldrei fyrir mann sjálfan en þessu lenti ég í,“ segir viðmælandi mbl.is. „Og ég vil vekja athygli fólks, einkum kvenna, á því að hægt er að leita sér aðstoðar í málum eins og mínu áður en til skelfingaratburða kemur. Kerfi flestra ríkja í Vestur-Evrópu eru opin fyrir að taka að sér mál á borð við mín.

Aðalatriðið er að fólkið í kringum mann sé tilbúið að opna augun – oftast er fólk hreinlega drepið í svona málum hér á Spáni og mín skylda gagnvart samfélaginu er að vekja athygli fólks á hættulegum einstaklingum og ekki láta segja við sig endalaust „láttu ekki svona manneskja, þetta hlýtur að jafna sig,““ eru lokaorð viðmælandans sem hvað sem öðru líður kveðst líta björtum augum til framtíðar. Mest sé þakklæti hennar fyrir að hún og barnið séu á lífi.

Höfuðáverki konunnar eftir að hann var hreinsaður á sjúkrahúsinu. Vopnið …
Höfuðáverki konunnar eftir að hann var hreinsaður á sjúkrahúsinu. Vopnið sem þarna var beitt hefur enn ekki fundist, en einsýnt er að þar hafi verið um eggvopn að ræða að mati sérfræðinga sjúkrahússins. Augljóst er að sú sem misgert var við mun þarfnast mikillar aðstoðar heilbrigðiskerfisins uns hér er gróið um heilt. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert