Danski kötturinn fundinn

Björgunarsveitarmenn tóku þátt í leitinni að kettinum.
Björgunarsveitarmenn tóku þátt í leitinni að kettinum. mbl.is/Rósa Braga

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir að búið sé að finna dönsku læðuna Nuk sem slapp út úr einkaflugvél á Reykjavíkurflugvelli í gær. Það var eigandinn sjálfur sem fann kisuna á flugvallarsvæðinu.

Mikil leit hófst eftir að kötturinn lét sig hverfa, en björgunarsveitarmenn tóku m.a. þátt í leitinni. Flugvélin lenti á Reykjavíkurflugvelli í fyrrakvöld.

Konráð Konráðsson, héraðsdýralæknir Matvælastofnunar, segir í samtali við mbl.is að eigandinn hafi haft samband við sig um kl. 20 í kvöld, en þá var hún nýbúin að finna Nuk.

„Eigandinn fann hana á flugvallarsvæðinu. Hún kom undan einhverri byggingunni,“ segir Konráð. Það sé hugsanlegt að kötturinn hafi verið inn á svæðinu allan tímann. „Hún var bara að rölta þarna um svæðið og kalla á hana,“ segir Konráð og hann bætir við aðspurður að eigandinn hafi að vonum verið mjög ánægður.

Kötturinn var færður aftur inn í flugvélina og er stefnt að því að taka sýni úr kisa á morgun og þá verður staðan jafnframt metin.

„Það eru tvær skoðanir uppi um þegar svona kemur upp. Önnur skoðunin er sú að það eigi að aflífa en hin skoðunin er sú að það eigi ekki að gera það,“ segir Konráð þegar hann er spurður út í verkferlið þegar svona mál koma upp. Það flokkast sem slys þegar köttur sleppur út með þessu hætti. Vélin hafi millilent og þarna sé því ekki um innflutning á dýri að ræða. 

„Ef einhver skaði hefur hlotist af þá er hann skeður. Þá er skoðunin sú að það gagni lítið að aflífa köttinn þess vegna. En þetta eru tvö sjónarmið sem eru uppi og svo kemur lögfræðin inn í þetta,“ segir Konráð og bætir við að menn muni fara betur yfir stöðuna á morgun.

Læðan er svört með hvítan blett í bringunni og með bleika hálsól. Hún er fjögurra ára gömul. Eigandinn hét þeim sem myndi finna köttinn 100 þúsund kr. í fundarlaun. 

- Hafa menn séð til þess að kötturinn nái ekki að sleppa út á nýjan leik?

„Já, mér skilst að það standi til að loka hurðinni vel núna,“ segir Konráð að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert