Minna á mikilvægi manngæsku og mannréttinda

Hátíðin fer fram á sama tíma og trúarhátíðin Hátíð vonar …
Hátíðin fer fram á sama tíma og trúarhátíðin Hátíð vonar fer fram í Laugardalshöll. Borgaryfirvöld létu leggja litríka gangbraut í dalnum í gær til að minna á baráttu hinsegin fólks.

Samtökin '78 bjóða til mannréttindahátíðarinnar Glæstra vona kl. 17 í dag í Þróttaraheimilinu Laugardal. Samtökin, sem minna á mikilvægi manngæsku og mannvirðingar, hvetja landsmenn til að mæta og sýna stuðning í verki við réttindi hinsegin fólks.

„Allt of margar og háværar raddir fá óáreittar að básúna út skilaboð haturs og lítillækkunar, dulbúin í klístraðar umbúðir kærleika. Veita þarf þeim röddum sterkt mótvægi. Hinsegin fólk hefur í áraraðir barist fyrir sjálfsögðum mannréttindum sínum og berst víða enn.

Samtökin ´78 vilja minna alla á mikilvægi sannrar mannvirðingar, manngæsku og mannréttinda. Með það að leiðarljósi blásum við til hátíðar í dag laugardag í Þróttaraheimilinu, Engjavegi 7, 104 Reykjavík. Hátíðin hefst kl. 17:00 og stendur í u.þ.b. klukkustund.

Erindi flytja Sigurður Hólm Gunnarsson frá Siðmennt og séra Sigríður Guðmarsdóttur sóknarprestur í Guðríðarkirkju. Tónlistaratriði úr sýningunni Ef lífið væri söngleikur. Söngur: Bjarni Snæbjörnsson og Sigríður Eyrún Friðriksdóttir. Píanóleikur: Karl Olgeirsson,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert