Harma afstöðu stjórnvalda til umhverfismála

Frá Þjórsárverum
Frá Þjórsárverum mbl.is/RAX

Ríkisstjórnin hefur vanvirt bæði rammaáætlun og náttúruverndarlög og starf þeirra fjölmörgu fagmanna og leikmanna sem komið hafa að þeim verkefnum á annan áratug.

Þetta segir í yfirlýsingu frá Náttúruverndarsamtökum Suðurlands og samtökunum Sól á Suðurlandi, sem lýsa vantrausti og furðu á gjörðum og yfirlýsingum Sigurðar Inga Jóhannssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Sunnlensku samtökin tvö taka þannig undir vantraustsyfirlýsingu Náttúruverndarsamtaka Íslands og harðorð mótmæli Landverndar vegna „óviðeigandi framkomu“ ráðherrans í garð íslenskrar náttúru.

Samtökin segjast harma afstöðu ríkisstjórnarinnar til umhverfismála. Ríkisstjórnin hafi sýnt friðlandinu í Þjórsárverum óvirðingu sem og áratuga baráttu heimamanna fyrir verndun þess. „Frestunin á staðfestingu stækkunar friðlandsins sem var tilbúin til undirritunar í vor reyndist aðeins vera forsmekkurinn að þeim árásum á Þjórsá sem síðar hafa orðið,“ segir í yfirlýsingu samtakanna tveggja.

Þá þakka samtökin öllum þeim sem lagt hafa lið baráttunni við verndun Þjórsár og Þjórsárvera á liðnum árum, þar á meðal Vigdísi Finnbogadóttur sem fyrir stuttu hvatti til verndunar allra stórfossanna í Þjórsá.

Þjórsárver
Þjórsárver mbl.is/Brynjar Gauti
Þjórsárver.
Þjórsárver. mbl.is/RAX
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert