Kanna hvers vegna vélin missti hæð

mbl.is/Skapti

Rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsakar nú brak flugvélar sem brotlenti á akstursíþróttasvæði við Hlíðarfjallsveg á Akureyri 5. ágúst sl. Rannsóknin beinist meðal annars að því hvers vegna flugvélin missti hæð. Í áframhaldandi rannsókn verður flak flugvélarinnar og hreyflar skoðaðir frekar ásamt fluglagi og afkastagetu hennar.

Þetta kemur fram í bráðabirgðaskýrslu sem nefndin hefur birt á heimasíðu sinni. Tveir létust í slysinu og einn maður slasaðist.

Þá segir, að hvorki hafi borist tilkynning um bilun eða neyðarástand frá áhöfn flugvélarinnar á meðan á fluginu stóð. 

Fram kemur í skýrslunni, að þann 5. ágúst 2013, kl. 10:21, hafi tveggja manna áhöfn á vélinni TF-MYX ásamt sjúkraflutningamanni lagt af stað frá Akureyri til Hornafjarðar í þeim tilgangi að sækja þar sjúkling  og flytja hann til Reykjavíkur.

„Eftir að hafa flutt sjúklinginn til Reykjavíkur var áætlað snúa aftur til Akureyrar. Fyrir flugið frá Reykjavíkurflugvelli voru settir 738 lítrar af eldsneyti á flugvélina. Þyngdar- og jafnvægisútreikningar voru gerðir fyrir þetta flug og sýndu þeir að flugvélin var innan þyngdar- og jafnvægismarka.

Klukkan 12:44 var lagt af stað frá Reykjavíkurflugvelli og var flogið yfir landið í FL1702. Þegar flugvélin var 10.5 DME3 frá Akureyrarflugvelli sá áhöfnin til flugvallarins og lauk blindflugi. Skömmu síðar óskaði áhöfnin eftir því við flugturninn að fljúga einn hring yfir bæinn og fékk það samþykkt,“ segir í skýrslunni.

„Skömmu síðar hafði flugturninn samband við áhöfnina á TF-MYX og tilkynnti að Fokker
flugvél væri að fara á loft til norðurs og óskaði eftir því að áhöfnin myndi fylgjast með umferð.  Áhöfn á TF-MYX staðfesti það, var þá við Kristnes og sagðist halda sig vestarlega. TF-MYX  var flogið í átt að akstursíþróttabraut við Hlíðarfjallsveg. Þegar flugvélinni nálgaðist
akstursíþróttabrautina í vinstri beygju, misst hún hæð og vinstri vængur hennar snerti jörð við  hægri hlið akstursíþróttabrautarinnar með þeim afleiðingum að hún brotlenti. Ekki barst
tilkynning um bilun eða neyðarástand frá áhöfn flugvélarinnar á meðan á fluginu stóð,“ segir í skýrslunni.

Þá segir, að við brotlendinguna hafi eldur kviknað og losnuðu vængir og stél frá skrokki flugvélarinnar. Skrokkur flugvélarinnar brotnaði og hafnaði um 350 metrum frá þeim stað er vinstri vængurinn snerti jörð. Við vettvangsrannsókn mátti sjá að vængbörð og hjól voru uppi.

„Brak flugvélarinnar hefur verið flutt í skýli Rannsóknarnefndar samgönguslysa til frekari rannsóknar. Rannsóknin beinist meðal annars að því hvers vegna flugvélin missti hæð. Í áframhaldandi rannsókn verður flak flugvélarinnar og hreyflar skoðaðir frekar ásamt fluglagi og afkastagetu hennar,“ segir í skýrslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert