„Lífið er ljúft á Íslandi“

„Lífið er ljúft á Íslandi,“ sagði Gilles Sierro, einn ofurhuga sem komu hingað til lands á vegum útivistarvörufyrirtækisins Marmot í mars síðastliðnum. Ofurhugarnir fengu að leika sér að vild í eina viku og njóta alls þess sem íslensk náttúra hefur að bjóða, en með myndatökumenn á eftir sér.

Marmot notaði svo efnið í 14 mínútna stuttmynd eða öllu heldur 14 mínútna langa auglýsingu. Hún verður svo eflaust klippt niður og notuð í bútum í markaðsherferð Marmot. Í myndbandinu má sjá stórglæsileg skot af íslenskri náttúru og ótrúleg tilþrif ofurhuganna á skíðum, snjóbrettum og við ísklifur svo fátt eitt sé nefnt.

Alls voru átján manns í hópnum, atvinnuskíðakappar, myndatökumenn og fylgdarlið en einnig íslenskir leiðsögumenn. Fólkið skoðaði fossa, baðaði sig upp úr heitum laugum, hljóp fáklætt í mjöllinni og henti sér í ískaldan sjóinn.

Ekki var skíðað á hefðbundnum skíðasvæðum heldur fram af Kirkjubólsfjalli í Skutulsfirði og öðrum fjöllum þar sem fáir hætta sér niður. Alltaf var reynt við einna mest krefjandi aðstæður sem landið hefur upp á að bjóða.

Í lok myndbandsins eru ofurhugarnir spurðir út í álit sitt á Íslandi og segjast þau öll vilja koma hingað aftur, hér sér stórkostlegt landslag og gott að skíða.

Frétt mbl.is: Ofurhugar renndu sér niður vafasamar brekkur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert