Ofurhugar renndu sér niður vafasamar brekkur

Kapparnir Alex Hofmann og Roman Rohrmoser horfa niður til Ísafjarðar.
Kapparnir Alex Hofmann og Roman Rohrmoser horfa niður til Ísafjarðar. mynd/Bæjarins besta

Nokkrir ofurhugar renndu sér fram af Kirkjubólsfjalli í Skutulsfirði á snjóbretti og á skíðum í gær. Þeir eru hluti af átján manna hópi sem er staddur hér á landi á vegum Marmot til að taka myndir og myndbönd fyrir markaðsefni fyrirtækisins.  Þetta kemur fram á Bæjarins besta.

„Stærsti hluti hópsins fór yfir á Snæfjallaströnd þar sem þeir voru á fjallaskíðum. Nokkrir fóru aðeins lengra í ísklifur. Svo voru þrír ofurhugar sem fóru upp á Kirkjubólsfjall og renndu sér niður Hrófarsteinsgil. Einn maður er á leiðinni þangað aftur og ætlar að renna sér niður enn brattari brekku, en hann þarf að síga niður einhverja kletta til að komast í brautina. Þetta eru eflaust mest krefjandi aðstæður sem þeir komast í hérna heima,“ segir Smári Guðnason, markaðsfulltrúi Fjallakofans, í samtali við Bæjarins besta á Ísafirði

Hópurinn samanstendur af ljósmyndurum, blaðamönnum og atvinnuskíðaköppum og er hann hérlendis á vegum Borea Adventures, Fjallakofans og Hótels Ísafjarðar.

Í frétt Bæjarins besta kemur fram, að skíðakapparnir hafi verið heillaðir af náttúru Íslands og að þeir hafi skemmt sér við að skíða niður vafasamar brekkur og gil. Verður hópurinn við tökur í dag og stefnir á að fara til Bolungarvíkur og Flateyrar ef tími gefst til.

Í meðfylgjandi myndskeiði má sjá snjóbrettakappann Alex Hoffman renna sér niður Hrófarsteinsgil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert