„Ég á mjög mikið inni“

Arnar Þór Jónsson forsetaframbjóðandi.
Arnar Þór Jónsson forsetaframbjóðandi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Arnar Þór Jónsson forsetaframbjóðandi telur sig eiga mikið inni í baráttunni um Bessastaði en í nýjustu skoðanakönnun Prósents sem birt er í Morgunblaðinu i dag mælist fylgi hans 4,3 prósent.

Arnar hefur hækkað töluvert frá síðustu könnun Prósents en fyrir viku síðan mældist fylgi hans 2,7 prósent.

„Samkvæmt því sem ég les út úr þessu þá er helmingurinn af landsmönnum óákveðinn og ég geri ráð fyrir að stór hluti þeirra sem segjast vera ákveðnir núna eigi líka eftir að breyta um skoðun,“ segir lögmaðurinn Arnar Þór við mbl.is.

Erum á fimmtu til sjöttu mínútu

Arnar segist taka þessari könnun með eðlilegum fyrirvörum og hann segist ætla að halda áfram að kynna sinn málstað og sjálfan sig.

„Ég hef trú á því að það eigi mjög margt eftir að breytast. Ég myndi segja að við séum um það bil á fimmtu til sjöttu mínútu af nítíu mínútna leik. Ég á mjög mikið inni þegar fólk kynnist mér betur,“ segir Arnar.

Arnar segir að fyrst megin þorri svaranna í könnuninni hafi borist fyrir kappræðurnar á RÚV á föstudagskvöld þá hafi hún áhrif á niðurstöðurnar. Hann segist vera á fullu í kosningabaráttunni og það sé engan bilbug að finna á sér.

„Það er töluvert álag en ég er ennþá í góðu standi enda vel undir þessa baráttu búinn. Ég er keppnismaður,“ segir Arnar, sem ætlar meðal annars að kynna framboð sitt fyrir Grindvíkingum í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert