Halla hélt forystu en Katrín sækir á

Katrín Jakobsdóttir og Halla Hrund Logadóttir.
Katrín Jakobsdóttir og Halla Hrund Logadóttir. Samsett mynd

Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri hélt forystu sinni í vikulegri skoðanakönnun Prósents fyrir Morgunblaðið, en 29,7% þeirra sem afstöðu tóku til frambjóðenda í forsetakjöri sögðust vilja hana helst.

Þar nokkuð á eftir er Katrín Jakobsdóttir, fv. forsætisráðherra, með 21,3% en fast á hæla henni Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðiprófessor. Ekki er tölfræðilega marktækur munur á þeim tveimur. Jón Gnarr er þar svo talsvert fyrir aftan.

Halla Hrund var í könnuninni með fylgi á svipuðum slóðum og í liðinni viku, en þó að mælitalan sé hærri nú en þá er það allt innan vikmarka.

Hins vegar er greinilegt að Katrín Jakobsdóttir er aftur að sækja í sig veðrið eftir að hafa lækkað nokkuð bratt í liðinni viku.

Rétt er að taka fram að könnunin var gerð í liðinni viku og fram á gærdag, en þorri svaranna barst áður en sjónvarpskappræður forsetaframbjóðenda fóru fram. Viðbúið er að þær hafi haft nokkur áhrif á fylgi frambjóðenda, sem þessi könnun endurspeglar ekki.

Fylgi annarra frambjóðenda breyttist lítið, svo máli skipti, en þó má geta þess að Halla Tómasdóttir forstjóri fór upp í 5,1% og Arnar Þór Jónsson lögmaður hækkaði talsvert, upp í 4,3%.

Aftur var ekki aðeins spurt hver menn vildu að ynni kosningarnar, heldur hver menn teldu að ynni, óháð eigin afstöðu. Þar skara þær Halla Hrund og Katrín fram úr og ekki tölfræðilega marktækur munur á þeim.

Hins vegar eru mun færri trúaðir á að Baldur eða Jón Gnarr geti sigrað úr því sem komið er. Aðeins þriðji hver fylgjandi Jóns telur hann eiga möguleika, en aðeins sjötti hver fylgjandi Baldurs telur þetta tapað.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert