Randver stjórnarformaður týndur

„Randver hvarf af skrifstofunni aðfararnótt föstudagsins 4. október og teljum við líklegt að hann þjáist af einhverskonar elliglöpum og hafi mögulega ruglast og þannig villst of langt í burtu.“

Þannig hefst frétt á vef Forlagsins. Það skal tekið fram að Randver er köttur.

Forlagið er í Vesturbæ Reykjavíkur og „þætti okkur óendanlega vænt um ef þið hefðuð augun hjá ykkur og létuð okkur vita ef þið sjáið til hans,“ segir í fréttinni.

„Hann er blíður og yndislegur köttur, 19 ára að aldri og var með svarta ól um hálsinn þegar hann hvarf. Hann er líka eyrnamerktur.“

Samkvæmt upplýsingum frá forlaginu var Vesturbænum skipt upp í leitarsvæði og leitað að Randver. Fólk hafi einnig komið við og sótt auglýsingar þar sem tilkynnt er að hans sé leitað.

Í frétt sem birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins í maí á þessu ári er haft eftir Jóhanni Páli Valdimarssyni, bókaútgefanda, að hann sé með tvo íslenska ketti í vinnunni til að hjálpa til við ákvörðunartöku. „Ég bjargaði Nóa. Hann er undan villilæðu. Ég var nýbúinn að missa kött og frétti af þessum agnarlitlum. Móðir hans hvarf og systkini hans dóu þannig að ég gaf honum mjólk úr sprautu. Hann hefur fitnað mikið og braggast vel en hann borðar alltaf eins og hann sé að borða síðustu kvöldmáltíðina.“

JPV er vel rekið fyrirtæki og segir Jóhann að kettirnir eigi sinn hlut í því. „Báðir kettirnir gegna mikilvægu hlutverki. Ef við erum á samningafundum og stjórnarformaðurinn sýnir einhverja ókyrrð þá hættum við við samninga. Það er bara tákn um að þetta sé óheillaspor. Svo þegar ég þarf að taka stórar ákvarðanir þá fer ég til Randvers og heyri í honum hljóðið. Þetta hefur reynst okkur vel. Ég þakka Randveri mikið fyrir velgengni fyrirtækisins,“ sagði Jóhann og klappaði Randveri, stjórnarformanninum sjálfum, í viðtalinu í maí.

Hægt að fá auglýsingar

„Að gefnu tilefni bendum við á að hægt er að koma á skrifstofu Forlagsins á Bræðraborgarstíg 7, milli 09:00 og 17:00, og fá útprentaðar auglýsingar til þess að hengja upp. Öll hjálp er vel þegin,“ segir í hjálparkalli Forlagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert