Skorar á útgerðarmenn að styrkja spítalann

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG. mbl.is/Ómar Óskarsson

Lilja Rafney Magnúsdóttir þingmaður Vinstri grænna segist sannfærð um að til séu útgerðarmenn sem myndu vilja „vera land sinni og þjóð til sóma“ með því að koma Landspítalanum til hjálpar í erfiðum aðstæðum.

„Nú þegar ársreikningar stórútgerðarfyrirtækja eru að koma inn og hvert á fætur öðru er að skila gríðarlegum hagnaði og menn eru að taka til sín minn arð, þá verður maður hugsi,“ sagði Lilja Rafney í upphafi þingfundar nú síðdegis. 

Hún sagðist hugsi vegna þess að útgerðirnar séu að nýta sameiginlega auðlind allra landsmanna. Á sama tíma sé verið að „kroppa af einstökum liðum“ í fjárlögum til að finna fé fyrir Landspítalann.

Lilja Rafney sagðist því spyrja sig „hvort útgerðarmenn myndu ekki sjálfir af eigin frumkvæði óska eftir því að leggja meira af mörkum til að styrkja heilbrigðiskerfi okkar landsmanna“.

Sagðist hún skora á útgerðarmenn landsins að hugsa málið með þessum hætti og sagðist telja að þeir myndu uppskera velvild þjóðarinnar með því að sýna þann sóma að styrkja nýjan Landspítala með sínu framlagi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert