Boða einungis frumvarp til afturköllunar

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Sú framför sem fólst í nýjum náttúruverndarlögum sem samþykkt voru í vor voru m.a. sérstök verndarmarkmið fyrir annars vegar vistkerfi og tegundir og hins vegar fyrir jarðminjar, vatnasvið og landslag. Þar voru útfærðar nokkrar af helstu meginreglum umhverfisréttar, t.a.m. varúðarreglan og greiðslureglan. Þar var kveðið á með skýrari hætti um hlutverk stjórnvalda og ábyrgð sem og um verkaskiptingu þeirra á milli, mælt fyrir um undirbúning ákvörðunar og réttaráhrif þeirra og lögð áhersla á vísindalegan grundvöll ákvarðanatöku.“

Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, í sérstakri umræðu um lagaumhverfi náttúruverndar sem fram fór á Alþingi í dag.

Katrín sagði þá löggjöf sem samþykkt var á síðasta þingi hafa verið byggða á mikilli vinnu, sem fyrst birtist í hvítbók um löggjöf til verndar náttúru Íslands. Því næst var efnt til kynningarfundar um hvítbókina af hálfu Umhverfis- og auðlindarráðuneytisins og að þeim fundi loknum fór fram opið umsagnarferli þar sem fjölmargar umsagnir bárust.

Boða afturför í umhverfismálum

„Að lokum voru hér samþykkt lög með gildistíma sem átti að hefjast í vor en nú hefur hæstvirtur umhverfis- og auðlindarráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson kynnt það, bæði í orði og á þingmálaskrá, að þessi nýja löggjöf verði afturkölluð,“ sagði Katrín og bætti við að hún sé mjög ósátt við þessa ákvörðun.

Þá benti hún einnig á að Sigurður Ingi hafi boðað nýtt frumvarp til náttúruverndar á vorþingi. „Það sló mig svo að á þingmálaskrá er einungis boðað frumvarp til afturköllunar en ekki nýtt frumvarp, sem þýðir þá að við eigum að hafa hér áfram lögin frá 1999.“

Segir Katrín því verið að boða afturför í náttúrumálum.

Nýtt frumvarp um náttúruverndarlög 2015

Sigurður Ingi sagði m.a. í andsvari sínu að ráðuneytið muni hefja vinnu við að endurskoða náttúruverndarlögin. Benti ráðherrann einnig á að stefnt sé að því að leggja fram nýtt og endurbætt frumvarp um náttúruverndarlög, óháð því hvort það standi berum orðum á þingmálaskránni eða ekki. „Ég hef mikla trú á því að það takist.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert