Tengingin freistandi en ekki áhættulaus

Hellisheiðarvirkjun.
Hellisheiðarvirkjun. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í morgun að heimila Orkuveitu Reykjavíkur að tengja borholurnar í Hverahlíð við Hellisheiðarvirkjun til að geta haldið uppi afköstum virkjunarinnar. Borgarfulltrúi Vinstri grænna greiddi einn atkvæði gegn tillögunni.

Í bókun VG vegna málsins segir að tengingin sé skammtímalausn sem ekki taki á hinum raunverulega vanda sem of miklar væntingar til afkastagetu á svæðinu hafa skapað.

„Tenging þessara háhitavirkjana getur hljómað freistandi miðað við gefnar forsendur og til skamms tíma. Hún er þó alls ekki áhættulaus og miklar líkur á að hún fresti aðeins vandanum sem mun halda áfram að vaxa. Lausnin er auk þess sett fram án þess að kannaðir hafi verið kostir þess að endursemja um verð eða gera tilraun til að fá önnur orkufyrirtæki til að yfirtaka einhvern hluta samninganna sem Orkuveitan hefur ekki getað staðið við,“ segir m.a. í bókun VG.

Þá segir: „Raunafkastageta Hellisheiðarvirkjunar er ekki og verður aldrei 303 MW til lengri tíma. Neiti meirihlutinn að horfast í augu við það mun svæðið verða þurrausið innan örfárra áratuga. Þá fyrst verða góð ráð dýr og ósanngjarnt með öllu að sá kostnaður falli á afkomendur okkar. 

Það er löngu tímabært að snúa af braut stóriðjustefnunnar og fara að nýta jarðvarmann af varúð og skynsemi í þágu almennings. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna greiðir atkvæði gegn tillögunni og lýsir yfir vonbrigðum með afgreiðslu meirihluta Besta flokks og Samfylkingar, flokka sem á tyllidögum hafa kennt sig við græna framtíð og sjálfbærni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert