Mótmælendur bornir af svæðinu

Framkvæmdir fóru fram undir vernd lögreglu í gær.
Framkvæmdir fóru fram undir vernd lögreglu í gær. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Hópur mótmælenda er mættur við Gálgahraun til þess að mótmæla framkvæmdum við nýjan Álftanesveg en framkvæmdir hófust að nýju við veginn í gær undir lögregluvernd. Um 20-30 mótmælendur voru mættir í morgun og fóru 6-7 þeirra inn á vinnusvæðið og settust niður fyrir framan vinnuvélar að sögn lögreglu. Voru þeir þá bornir út af svæðinu.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hafa mótmælendur ekki gert frekari tilraunir til þess að fara inn á vinnusvæðið en um 20 lögreglumenn eru nú á staðnum. Framkvæmdir eru hafnar að nýju við veginn undir lögregluvernd líkt og í gær. „Þeir hafa haldið sig fyrir utan línu sem hefur verið mörkuð hérna og fylgjast með,“ segir Kristján Helgi Þráinsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

Lögreglan stóð í ströngu í gær við að flytja mótmælendur af vinnusvæðinu eins og mbl.is greindi frá og voru margir þeirra handteknir og færðir í fangaklefa fyrir að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu. Sumir voru handteknir oftar en einu sinni. Þá hafa mótmælendur boðað mótmæli fyrir utan innanríkisráðuneytið í hádeginu í dag vegna framkvæmdanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert