Ósáttur við seinagang í IKEA-máli

IKEA.
IKEA. Eyþór Árnason

Mál Miklatorgs hf., sem rekur IKEA á Íslandi, á hendur fimm einstaklingum sem sviku fé út úr félaginu verður þingfest í byrjun næsta mánaðar. Kæra sama félags til lögreglu vegna sömu fjársvika er hins vegar enn til rannsóknar hjá lögreglu og er rannsóknin á lokastigi.

Sömu fimm einstaklingar, þrjár konur og tveir karlmenn, hafa réttarstöðu sakbornings í rannsókn lögreglu höfuðborgarsvæðisins á stórfelldum fjársvikum en þau voru kærð í febrúar síðastliðnum. Samkvæmt upplýsingum frá Friðriki Smára Björgvinssyni, yfirmanni rannsóknardeildar lögreglu höfuðborgarsvæðisins, er rannsóknin á lokastigi. Í kjölfarið verður það sent ákærusviði sem tekur ákvörðun um ákæru.

Brotin fólust einkum í því að strikamerki af ódýrum vörum voru sett yfir dýrari áður en þær voru keyptar. Síðan hafi þau farið á afgreiðslukassa og látið skanna vörurnar og greitt þannig fyrir ódýrari vöruna. Vörunum var síðan skilað á réttu verði fyrir inneignarnótur sem voru notaðar til að kaupa aðrar vörur eða þeim breytt í gjafabréf sem hægt var að koma í verð. Brotin voru fjölmörg og stóðu yfir í sex ár.

Þegar Miklatorg höfðaði einkamálið á hendur umræddum fimm einstaklingum sagði í tilkynningu að brotin virtust þaulhugsuð og -skipulögð. Í málinu er þess krafist að umræddir einstaklingar greiði tjónið sem Miklatorg varð fyrir, nemur það hátt í fimm milljónum króna. Auk þess er krafist málskostnaðar.

Lætur reyna á einkamál

Nokkuð óvanalegt er að einkamál séu höfðuð í málum sem þessum áður en refsimálið er til lykta leitt. Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA, segist hins vegar ætla að láta reyna á málatilbúnað sinn fyrir dómstólum. Hann er mjög ósáttur við það sem hann kallar seinagang hjá lögreglu við rannsókn málsins. „Við lögðum margra mánaða vinnu í þetta mál sjálf og lögðum fram fullt af sönnunargögnum. Ég er mjög ósáttur að lögregla hafi ekki afgreitt þetta á öflugri hátt.“

Þá er hann ósáttur við vinnubrögð lögreglu þegar kom að skýrslutökum yfir sakborningum. Einn og einn hafi verið kallaður til skýrslutöku þannig að sakborningar hafi haft góðan tíma til að samræma framburði og skjóta undan verðmætum. Lögregla hafi fengið málið í hendurnar í febrúar, níu mánuðir séu liðnir og rannsókninni ekki einu sinni lokið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert