Jöfnuður í Evrópu óvíða meiri en á Íslandi

mbl.is/Ómar

Árið 2012 var hlutfall landsmanna sem var undir lágtekjumörkum eða í hættu á félagslegri einangrun lægra á Íslandi en annars staðar í Evrópu. Á Íslandi var hlutfallið 12,7% en 25% meðal íbúa Evrópusambandsins. Hlutfallið í Noregi var næst lægst og þar á eftir var Holland.

Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar.

Fram kemur, að þau lönd þar sem íbúar hafi helst verið fyrir neðan lágtekjumörk eða í félagslegri einangrun voru Búlgaría, Rúmenía og Lettland. Mælingin byggist á þremur þáttum: heimilistekjum, vinnuþátttöku heimilismanna og hvað heimilin geta leyft sér af efnislegum gæðum. 

Ef litið er eingöngu á þá sem voru fyrir neðan lágtekjumörk var hlutfallið einnig lægst á Íslandi, 7,9% en 17,1% innan Evrópusambandsins. Tékkland var með næst lægsta lágtekjuhlutfallið og þar á eftir komu Noregur og Holland. Lágtekjumörk skilgreinast sem 60% af miðgildistekjum í hverju landi.

Þegar aðrir mælikvarðar á tekjudreifingu eru skoðaðir var Ísland með þriðja mesta jöfnuðinn meðal Evrópuþjóða árið 2012. Gini-stuðullinn á Íslandi var 24 en 30,5 innan Evrópusambandsins. Lægstur var Gini-stuðullinn í Noregi, 22,6 og Slóveníu, 23,7. Stuðullinn væri 0 ef allir hefðu jafnar tekjur en 100 ef allar tekjur tilheyrðu sama einstaklingnum. Fimmtungastuðullinn ber saman tekjur þeirra 20% tekjuhæstu og þeirra 20% tekjulægstu. Á Íslandi var tekjuhæsti fimmtungurinn með 3,4 sinnum hærri tekjur en sá tekjulægsti en 5,1 innan Evrópusambandsins. Norðmenn voru með lægsta fimmtungastuðulinn, 3,2 og Slóvenar voru næstir með 3,4.

Samkvæmt lífskjararannsókninni stóð kaupmáttur í stað milli ára eftir að hafa farið lækkandi frá árinu 2009. Þróun kaupmáttar milli áranna 2011 og 2012 var svipuð í öllum tekjufimmtungum. Kaupmáttur þeirra tekjuhæstu rýrnaði hins vegar mest milli áranna 2009 og 2011.

Hagstofa Íslands hefur gefið út Hagtíðindi um lágtekjumörk og tekjudreifingu 2012 þar sem nánar er greint frá niðurstöðum.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert