Vísa ásökunum Ásmundar á bug

Ásmundur Friðriksson er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Ásmundur Friðriksson er þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nýlega fullyrti Ásmundur Friðriksson alþingismaður í ræðustól Alþingis að fyrirtæki sem slátra og vinna kjúkling þíði upp, vinni og pakki erlendan kjúkling í umbúðir fyrirtækisins og séu þannig að selja innflutta kjúklinga sem ferska íslenska kjúklinga.

Neytendasamtökin ákváðu því að kanna hvað hæft væri í þessu og sendu fyrirspurn til þeirra þriggja fyrirtækja sem slátra og pakka kjúklingi í neytendaumbúðir. Í svörum þeirra er þessari fullyrðingu hafnað með öllu, samkvæmt frétt á vef Neytendasamtakanna.

Í svari Reykjagarðs kemur m.a. fram að slík vinnubrögð væru vörusvik rétt eins og Neytendasamtökin hafa einnig bent á og að Reykjagarður tæki aldrei þátt í slíku. Í svari Ísfugls segir m.a. að „Ísfugl selji aðeins úrvals íslenskt hráefni”. Í svari Matfugls kemur m.a. fram að „Matfugl hefur aldrei flutt inn erlendan kjúkling sem pakkað er í neytendapakkningar og selt sem íslenskan kjúkling”. Einnig kemur fram í svari frá forráðamönnum bæði Holtakjúklings og Matfugls að í framtíðinni verði þeirra vörur merktar með upprunalandi, þ.e. Íslandi.

Mæla með því að þingmaðurinn kanni hluti áður en hann fjallar um þá

„Rétt er að fram komi að Matvælastofnun hefur eftirlit með þessum fyrirtækjum. Með því eftirliti er m.a. tryggður fullur rekjanleiki með vörunum þannig að ef upp koma vandamál í framleiðslunni er hægt að rekja það til viðkomandi kjúklingaframleiðanda. Það hefði því verið eðlilegt að viðkomandi þingmaður hefði leitað sér betri upplýsinga hjá Matvælastofnun áður en hann fór með málið í ræðustól Alþingis.

Þess skal jafnframt getið að bannað er að selja innfluttan kjúkling í verslunum hér á landi nema hann sé frosinn eða steiktur. Því miður eru hinsvegar engar reglur um að upprunaland skuli koma fram við sölu á kjúklingum fremur en öðru kjöti. Þetta hafa Neytendasamtökin ítrekað gagnrýnt enda sé um að ræða mikilvægar upplýsingar fyrir neytendur til að tryggja að þeir geti valið á upplýstan hátt. Þann 1. desember 2014 ganga í gildi nýjar reglur í ESB um upprunamerkingar á öllu kjöti og verðum við sem aðilar að EES-samningnum að taka þær upp.

Það er skoðun Neytendasamtakanna að engin ástæða sé að bíða eftir reglum ESB heldur beri að setja þessar reglur hér þegar í stað. Að mati samtakanna á ekkert að vera því til fyrirstöðu og í því sambandi er minnt á að fyrir fáum árum voru settar reglur um að merkja skuli allt grænmeti með upprunalandi og þá þurfti ekki að bíða eftir evrópskum reglum,“ segir á vef Neytendasamtakanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert