Tekist á um fjáraukalögin

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu frumvarp ríkisstjórnarinnar til fjáraukalaga harðlega á Alþingi í morgun og þá forgangsröðun og niðurskurð sem birtist í því eftir að Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hafði mælt fyrir frumvarpinu.

Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar og forveri Bjarna í embætti fjármálaráðherra, sagði frumvarpið fyrst og fremst sýna þann hugmyndafræðilega mun sem væri nú núverandi ríkisstjórn og þeirri síðustu. Hún gagnrýndi núverandi stjórn harðlega fyrir að reyna að endurskrifa söguna með því að halda því fram að hún hefði tekið við óvenju slæmu búi og kenna fyrri stjórn um stöðuna í ríkisfjármálunum.

Þá hafnaði Katrín því að ýmsar framkvæmdir sem fyrri ríkisstjórn hefði sett á dagskrá en núverandi stjórn tekið út af borðinu hefðu ekki verið fjármagnaðar. Það væri núverandi stjórn sem hefði afsalað sér tekjustofnum, meðal annars í gegnum veiðigjald og gistináttagjald, og þannig kippt fjármagni frá þessum verkefnum. Hún sakaði stjórnvöld ennfremur um að auka óvissu í efnahagsmálum og sett hagkerfið í handbremsu.

Bjarni sagði að jafnvel þó tekið hefði verið aukið veiðigjald af sjávarútveginum hefði hallinn á ríkissjóði eftir sem áður verið sá sami. Fullyrðingar um að þær framkvæmdir sem fyrri stjórn hafi sett á dagskrá í fjárfestingaáætlun sinni hafi allar verið fjármagnaðar væru algerlega úr lausu lofti gripnar. Hann spurði hvar tekjur af leigukvóta sem hefðu átt að skila sér, arður sem átti að skila sér til ríkisins eða tekjur af sölu eigna. „Ekkert af þessu hefur skilað sér.“

Katrín Júlíusdóttur, varaformaður Samfylkingarinnar.
Katrín Júlíusdóttur, varaformaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert