Útvarpshúsið verði lögreglustöð

Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra.
Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Gerð og lega útvarpshússins myndi henta vel fyrir höfuðstöðvar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þetta segir Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, á heimasíðu sinni. Þess utan mætti koma þar fyrir fleiri opinberum öryggisstofnunum. Páll Magnússon, útvarpsstjóri, sagði í Kastljósinu á fimmtudagskvöldið að hann vildi selja útvarpshúsið.

„Miðað við legu útvarpshússins á höfuðborgarsvæðinu og gerð hússins með miklum geymslum fyrir tæki og tól auk góðs rýmis umhverfis það mundi húsið til dæmis henta vel sem höfuðstöðvar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og þar færi einnig vel um samhæfingarstjórn almannavarna, fjarskiptadeild lögreglu, neyðarlínuna auk vaktstöðvar siglinga,“ segir Björn.

Þá væru fjárfestar vafalaust áhugasamir um að nýta lögreglustöðina við Hverfisgötu í þágu þjónustu af einhverju tagi eða reisa nýtt hús á reitnum í ljósi áforma Reykjavíkurborgar um breytingar á Hlemmi í þágu skapandi greina. Þar væri einnig kjörinn staður fyrir Listaháskóla Íslands sem vilji vera í hringiðu miðborgarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert