Viðurkenndar handtökuaðferðir ógiltar

Handtakan á Laugavegi.
Handtakan á Laugavegi.

Fullt tilefni var til að handtaka konu sem sinnti ekki fyrirmælum lögreglu og hrækti á lögreglumann á Laugavegi í júlí síðastliðnum. Fullt tilefni var til að tryggja að hún hrækti ekki aftur, nauðsynlegt að handjárna hana og einnig var nauðsynlegt að handtakan gengi fljótt fyrir sig. Þetta kemur fram í dómi yfir lögreglumanninum sem handtók konuna.

Þrátt fyrir þetta var lögreglumaðurinn sakfelldur fyrir að fara offari í starfi og fyrir líkamsárás þegar hann handtók konuna. Í dóminum segir: „Brotaþoli hafði beitt ákærða ofbeldi með því að hrækja á hann og var því fullt tilefni fyrir hann að tryggja að hún gerði það ekki aftur. Þess vegna var rétt hjá honum að gæta þess við handtökuna að brotaþoli sneri ekki andliti sínu að honum.“

Við aðalmeðferð málsins komu fyrir dóminn lögreglufulltrúi sem kennir lögreglutök við lögregluskólann og tveir lögreglumenn sem þjálfa lögreglumenn í þessum tökum. Þeir báru allir um að lögreglumaðurinn hefði beitt viðurkenndum aðferðum við handtökuna. Og að í ákæru sé í raun aðeins verið að lýsa þeirri handtökuaðferð sem beitt var.

Sjálfur sagði lögreglumaðurinn að hann meti sjálfur aðstæður hverju sinni og þarna taldi hann sig ekki geta tekið áhættuna á því að beita vægari úrræðum. Þetta hafi verið vægasta úrræðið í þessum aðstæðum og með þessu lögreglutaki hafi hann gert það sem var öruggast fyrir þau bæði. Saksóknari spurði hvort ekki hefði verið hægt að beita vægari úrræðum, t.d. að handtaka konuna þar sem hún stóð. „Nei, vegna þess að ef hún hefði staðið upprétt hefði hún getað snúið sér við og hrækt aftur framan í mig eða okkur. Það er ástæðan fyrir því að ég vel þessa aðferð,“ sagði hann þá.

Veitti mótspyrnu í lögreglubílnum

Dómurinn féllst því á að rétt hafi verið að gæta þess við handtökuna að konan sneri ekki andliti sínu að lögreglumanninum. En svo segir: „Hins vegar er á það að líta að ákærða gat ekki dulist mikil ölvun brotaþola og þá um leið að þess var vart að vænta að hún myndi veita mikla mótspyrnu. Þess vegna verður ekki séð að nauðsyn hafi borið til að snúa brotaþola niður á þann hátt sem gert var og draga hana eftir götunni, þótt aðeins væri um stuttan spöl að ræða og í kjölfarið að handjárna hana liggjandi á maganum í götunni og setja hné í hana á þann hátt sem lýst var.“

Af þessu má ráða að ekki hafi verið fallist á orð verjanda lögreglumannsins sem sagði í málflutningi að ekki megi gefa fólki frípassa af því það er ölvað. Ástand hennar hafi ekki á nokkurn hátt gefið til kynna að hún myndi ekki hrækja aftur. Jafnframt var greint frá því við aðalmeðferðina að konan hafi veitt mótspyrnu í lögreglubílnum á leiðinni niður á lögreglustöð, en virðist ekki hafa komið til skoðunar.

Þá getur dómurinn þess sérstaklega að nauðsynlegt hafi verið að handtakan gengi fljótt fyrir sig. „"Hafa verður í huga við hvaða aðstæður brotaþoli er handtekin, en myndböndin bera með sér að allmargt fólk hafi verið á vettvangi, að líkindum flest undir áhrifum áfengis. Alkunna er að við slíkar aðstæður vilja margir hafa skoðanir á verkum lögreglumanna og eiga þá til að láta hendur skipta ef ekki er farið að tillögum þeirra. Það verður því fallist á með ákærða að nauðsynlegt hafi verið að handtakan gengi fljótt fyrir sig til að öryggi lögreglumanna og brotaþola væri tryggt.“

Alltaf hætta á minniháttar meiðslum

Lögreglumaðurinn var einnig sakfelldur fyrir að beita konuna líkamsárás. Í dómnum segir að lögreglumanninum hafi mátt vera ljóst að konan myndi, með þeirri aðferð sem hann beitti, meiðast umfram það sem búast má við að gerist þegar fólk er handtekið. Konan hlaut mar á hægri upphandlegg, mar á hægri mjaðmakamb, mar utanvert á hægra hné, bólgu yfir hægra augnloki og mar yfir hægra kinnbeini.

Lögreglufulltrúinn sem kennir lögreglutökin og lögreglumennirnir sem þjálfa lögreglumenn í tökunum báru allir um að það sé alltaf hætta á að fólk hljóti minniháttar meiðsli við handtöku og ótalmörg dæmi séu um það.

Lögreglumaðurinn var dæmdur til að greiða 300 þúsund krónur í sekt til ríkissjóðs, 230 þúsund krónur til handa konunni í miskabætur og útlagðan kostnað, 68 þúsund krónur í sakarkostnað, 700 þúsund króna málsvarnarlaun og 251 þúsund króna þóknun til réttargæslumanns. Samtals þarf hann því að greiða rúma eina og hálfa milljón króna vegna málsins.

Heimildir mbl.is herma að mikil ólga sé meðal lögreglumanna vegna dómsins og túlka þeir hann sem svo að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi í raun ógilt viðurkenndar handtökuaðferðir. Tekin hefur verið ákvörðun um að sækja um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar strax eftir helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert