Vara við hvössum vindhviðum

Búast má við hvössum vindhviðum, 35-40 m/s undir Eyjafjöllum og í Öræfasveit frá því síðdegis í dag og fram á nótt. Á Kjalarnesi má búast við vindhviðum seint í kvöld og fram undir morgun.

Slæmt ferðaveður, flughált og óveður er frá Steinum og austur að Vík í Mýrdal og óveður og krapi undir Eyjafjöllum.

Hálka  er á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum en hálka eða snjóþekja er á flestum vegum á Suðurlandi. Á Vesturlandi og Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja víðast hvar. Flughált er í Dýrafirði.

Hálka er einnig á velflestum vegum á Norðurlandi og Austurlandi en sumstaðar snjóþekja. Þæfingsfærð er á Dettifossvegi. Breiðdalsheiði og Öxi eru opnar. Hálka er með suðausturströndinni.

Verið er að endurnýja rafkerfi í Múlagöngum og því má búast við umferðartöfum þar frá klukkan níu á kvöldin til sex að morgni. Vegfarendur eru beðnir að gæta varúðar og virða hraðatakmarkanir meðan á framkvæmdum stendur.

Vegagerðin og Náttúrustofa Austurlands vara vegfarendur við umferð hreindýra á Austur- og Suðausturlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert