Atvinnulausir hafa áhyggjur af bótunum

mbl.is/Ómar

Nokkur fjöldi fólks á atvinnuleysisbótum hefur haft samband, bæði við Alþýðusambandið og aðildarfélög þess, vegna ótta um að hætt verði að greiða atvinnuleysisbætur þar sem Atvinnuleysistryggingasjóður sé tómur og fjármagn ekki til staðar, að því er fram kemur í tilkynningu frá ASÍ.

Tilefni þessara fyrirspurna er að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, lýsti í tíufréttum sjónvarpsins 17. desember stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs í tengslum við ákvörðun um greiðslu desemberuppbótar til atvinnuleitenda með eftirfarandi hætti: „Til þess að það sé hægt þurfa að vera til peningar í sjóðnum. Það var ekki núna. Raunar er sjóðurinn þegar kominn í töluverðan mínus þannig að ráðherra hafði ekki fjármuni til að greiða út.“

Það fylgdi síðan með að tekist hafi að finna fé og því verði hægt að greiða út desemberuppbótina. Margir atvinnuleitendur hafa skilið orð forsætisráðherra þannig að greiðsla atvinnuleysisbóta á nýju ári séu í uppnámi enda fullyrti Sigmundur Davíð að engir peningar væru til í Atvinnuleysistryggingasjóði, segir í frétt ASÍ.

Í tilefni af framangreindum orðum forsætisráðherra telur ASÍ rétt að fram komi að Vinnumálastofnun áætlar að eignir Atvinnuleysistryggingasjóðs um næstu áramót verði á bilinu 6,3 til 6,5 milljarðar króna. Þar til viðbótar er rétt að árétta að greiðslur atvinnuleysisbóta byggja á lögum um það efni og eru allar breytingar háðar lagabreytingum, en ekki stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert