Viðræðum lokið í bili

mbl.is/Rósa Braga

Viðræðum Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins lauk nú rétt fyrir miðnætti, en fulltrúar samtakanna höfðu setið á fundi hjá ríkissáttasemjara frá kl. 20 í kvöld. Ekkert samkomulag hefur náðst en kl. 9 í fyrramálið koma samninganefndir landssambanda ASÍ saman til að fara yfir stöðuna.

Það munu því engar kjaraviðræður eiga sér stað í Karphúsinu í nótt samkvæmt upplýsingum frá ríkissáttasemjara.

Í kvöld funduðu samninganefndir ASÍ og SA til að reyna ná samningi til eins árs. 

Ekki liggur fyrir hvenær fulltrúar SA munu koma saman í Karphúsinu til að fara yfir stöðuna.

Kjaraviðræður landsambanda ASÍ og SA hófust óvænt aftur í dag eftir að forystumenn ríkisstjórnarinnar samþykktu að gera frekari breytingar á fjárlögum.

Upp úr kjaraviðræðum ASÍ og SA slitnaði 5. desember og í framhaldi af því vísuðu stærstu landssambönd ASÍ kjaradeilunni til ríkissáttasemjara. Helsti ágreiningur deiluaðila hefur verið um launahækkun til þeirra sem lægstu launin hafa, en forystumenn SA segjast óttast að þær gangi upp allan launastigann og valdi þannig aukinni verðbólgu.

Nýtt útspil stjórnvalda virðist hafa átt þátt í að menn settust í dag aftur niður við samningaborðið og eru samningamenn mjög nálægt því að ljúka samningum, samkvæmt heimildum mbl.is.

„Ríkisstjórnin hefur lagt hér inn efni sem gagnast en dugar þó ekki,“ sagði Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, í samtali við RÚV í kvöld eftir að hann kom út af fundi með formönnum landsambanda ASÍ.

Stuttu eftir að formannafundi ASÍ lauk var fundi á Alþingi slitið og boðað til nýs þingfundar kl. 10 í fyrramálið. Fyrir fundinum liggur að ljúka 3. umræðu um fjárlagafrumvarpið.

Gylfi sagði eftir formannafundinn, að atvinnurekendur hefðu nálgast kröfur launþega verulega í fyrrinótt. Í dag hefðu forystumenn Samtaka atvinnulífsins og ASÍ farið sameinilega á fund forystumanna ríkisstjórnarinnar í þeim tilgangi að fá þá til að brúa það bil sem enn væri á milli manna.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert