Alþingi komið í jólafrí

Alþingishúsið.
Alþingishúsið. mbl.is/Ómar

Fundum Alþingis hefur verið frestað til 14. janúar nk. Fjárlagafrumvarpið var samþykkt nú á sjöunda tímanum. Fjármálaráðherra sagði þau marka tímamót þar sem skuldasöfnun ríkissjóðs hefði verið stöðvuð. Þau væru hallalaus í fyrsta sinn frá bankarhruni, en þau voru samþykkt með 900 milljóna afgangi.

Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis, sagði fjárlagafrumvarpið marki tímamót því skuldsöfnun hafi verið stöðvuð. Ný ríkisstjórn hafi „breytt kúrsinum“ til góðs fyrir alla landsmenn.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, segir frumvarpið marka skörp skil yfir í hægri sinnaða hugmyndafræði. Gengið hafi verið á innviðina og ýmsir vaxtasprotar klipptir ansi skarpt. Hún tók fram að margir af hinum verstu agnúum frumvarpsins sniðnir af því vegna þrýstings stjórnarandstöðunnar. 

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir að stjórnarandstaðan hafi haft mildandi áhrif á frumvarpið en stjórnarflokkarnir beri hins vegar alfarið ábyrgð á því. 

Tekjuskattsbreytingar samþykktar

Þá samþykkti Alþingi á frumvarp þar sem gerðar voru breytingar á lögum um tekjuskatt. Þar var lagt til að skatthlutfall í miðþrepi tekjuskatts einstaklinga verði 25,3%, jafnframt því að efri mörk lægsta þreps tekjuskatts hækki í 290 þús. kr. á mánuði frá og með 1. janúar 2014. Þetta hefur verið afgreitt á Alþingi sem lög.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert