Skref í átt að nýjum vinnubrögðum

Frá undirrituninni í kvöld. Þorsteinn Víglundsson er lengst til vinstri …
Frá undirrituninni í kvöld. Þorsteinn Víglundsson er lengst til vinstri á myndinni. mbl.is/Golli

„Þetta endaði með niðurstöðu sem ég held að allir eiga að geta vel við unað. En það sem skiptir mestu máli á endanum er framkvæmd samningsins og að okkur takist að tryggja efnahagslegan stöðugleika,“ segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, spurður út í viðbrögð vegna nýs kjarasamnings.

„Ég held að við séum að stíga mjög mikilvægt skref í átt að nýjum vinnubrögðum á vinnumarkaði. Við gerð þessa kjarasamnings var lögð talsvert meiri vinna í greiningu og undirbúning viðræðna og mat á efnahagslegum forsendum samningsins,“ segir Þorsteinn í samtali við mbl.is í kvöld.

„Þrátt fyrir að hart hafi verið tekist á, og við á endanum þurft að teygja okkur talsvert langt til þess að ná saman samningum, þá er það mat okkar að heildarlaunabreyting þessara kjarasamninga á næsta ári munu verða innan ramma seðlabanka hvað varðar verðlagsstöðugleika,“ segir hann ennfremur.

Þá segir Þorsteinn að með þessu séu menn jafnframt að taka höndum saman, þ.e. aðilar vinnumarkaðarins ásamt ríki og sveitarfélögum, um sérstakt átak til þess að halda aftur af verðbólgunni, tryggja verðlagsstöðugleika og að með þessum samningi náist raunverulegur árangur. 

Um er að ræða svokallaðan aðfararsamning og segir Þorsteinn það vera mikilvægt atriði. „Samhliða þessu munum við hefja undirbúning næsta kjarasamnings strax á nýju ári þar sem við stefnum að því að leggja drög að talsvert breyttum vinnubrögðum við gerð kjarasamninga,“ segir Þorsteinn.

Þá segir hann að tryggja beri að menn sjái góða þróun kaupmáttar, sér í lagi hjá þeim sem hafa lægstu launin. 

„Þær kláruðust áður en ég komst í þær,“ segir Þorsteinn og hlær þegar hann er spurður hvort menn hafi náð að fylla magann af vöfflum í kjölfar undirritunarinnar í húsakynnum ríkissáttasemjara í kvöld.

Kjarasamningar undirritaðir

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert