Um 6% launþega í neðsta skattþrepi

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þeir sem eingöngu greiða tekjuskatt til ríkisins í neðsta skattþrepinu greiða samtals 600 milljónir í skatt. Það er innan við 1% af tekjum ríkisins af tekjuskatti. Ríkið fær um 100 milljarða á ári í tekjuskatt. Um 6% launþega greiða eingöngu skatt í neðsta skattþrepinu.

Þetta sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á Alþingi í gær. Hann varði þar þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hækka ekki skattleysismörk eins og ASÍ hafði farið fram á. „Það er aðgerð, sem út frá ríkisfjármálum, er mjög kostnaðarsöm og hún er ekki heldur mjög markviss vegna þess að hún gengur upp allan launastigann. Hún hefur ekki komið til álita af hálfu ríkisstjórnarinnar að þessu sinni.“

Bjarni sagðist vera tilbúinn til að ræða við stjórnarandstöðuna um breytingar á tekjuskattskerfinu. „Það er rétt að á síðasta kjörtímabili var skapað sérstakt, nýtt skattþrep fyrir tekjulægsta hópinn. Það eru þó einungis 600 milljónir sem koma inn í ríkiskassann frá þeim sem eingöngu greiða skatt í neðsta þrepinu. Það eru 600 milljónir af um 100 milljörðum. Þetta er innan við 1%. Það er rétt um 6% launþega sem er eingöngu í neðsta þrepinu. Þessi hópur þurfti líka að horfast í augu við það á síðasta kjörtímabili að yfir ákveðið tímabil var persónuafslátturinn ekki verðtryggður, en einmitt þá geisaði verðbólga í landinu og af því hlaust kjaraskerðing fyrir þennan hóp.“

Bjarni tók fram að það hefði vissulega verið gríðarlega dýr aðgerð fyrir ríkissjóð á sínum tíma halda persónufrádrættinum verðtryggðum. Persónufrádrátturinn myndi hins vegar um næstu áramót hækka um 4,2%.

Boðar frekari breytingar á tekjuskatti

Samþykkt var í fjárlögum að lækka tekjuskatt um fimm milljarða á næsta ári. Í frumvarpinu var lagt til að þetta yrði gert með því að lækki tekjuskatt í miðþrepi úr 25,8% í 25%. Í gær var hins vegar samþykkt að efri mörk lægsta þreps tekjuskatts hækkaði í 290 þúsund krónur og skatthlutfall í miðþrepi yrði 25,3%. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að í þessu felist að þessar skattalækkanir muni koma hinum tekjulægri til góða, jafnframt því sem þær séu liður í að einfalda og auka skilvirkni skattkerfisins. Tekið fram í yfirlýsingunni, að stefnt sé að því að tekin verði frekari skref í þá átt við framlagningu frumvarps til fjárlaga 2015. Ríkisstjórnin ætli að beita sér fyrir heildarendurskoðun á tekjuskattskerfinu í áföngum með einföldun, fækkun skattþrepa og lækkun jaðarskatta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert