Björguðu 40 manns af Mosfellsheiði

mbl.is/Rósa Braga

Þrjár björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á höfuðborgarsvæðinu voru kallaðar út um klukkan fimm í dag til aðstoðar ferðamönnum sem voru í vandræðum á Mosfellsheiði.

Aðstoðarbeiðnir höfðu borist frá nokkrum ferðamönnum en þegar upp var staðið voru um 10 - 15 bílar í vandræðum ásamt rútu með um tuttugu ferðamenn. Alls voru því hátt í 40 ferðamenn aðstoðaðir til byggða. Í öllum tilfellum voru bifreiðar ferðamanna skildir eftir. Rétt í þessu er aðgerðum að ljúka og eru björgunarsveitarmenn á leið með ferðamenn á gististaði hér og þar á höfuðborgarsvæðinu.

Ekkert ferðaveður er á Mosfellsheiði frekar en víða annars staðar á heiðarvegum og ættu ferðalangar að kynna sér vel aðstæður áður en lagt er í hann núna um jólahátíðarnar, segir í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu.

Færð er farin að spillast í kringum höfuðborgarsvæðið. Töluverð ófærð er á Mosfellsheiði og er hún lokuð. Vegfarendur eru beðnir um að virða lokanir og kynna sér vel ástand vega áður en haldið er af stað, samkvæmt upplýsingum frá Almannavörnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert