Vill rannsaka afmarkaða þætti í rekstri Eirar

Hjúkrunarheimilið Eir að Fróðengi í Grafarvogi.
Hjúkrunarheimilið Eir að Fróðengi í Grafarvogi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ríkissaksóknari telur tilefni til að rannsaka greiðslur úr þróunarsjóði hjúkrunarheimilisins Eirar á árunum 2009-2011. Þetta kemur fram í bréfi sem embættið hefur sent Jóhanni Páli Símonarsyni, en hann óskaði eftir sakamálarannsókn á Eir.

Jóhann Páll óskaði eftir rannsókninni á grundvelli skýrslu Deloitte sem birt var í sumar.

„Ríkissaksóknari hefur farið yfir efnisatriði bréfsins og telur að tilefni sé til að rannsaka ávirðingar sem koma fram í kafla tvö í skýrslu Deloitte, þar sem rökstuddur grunur er um að greiðslur úr þróunarsjóði Eirar á árunum 2009-2011 hafi geti farið í bága við XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum 247., 248. og 249. gr. Er um að ræða greiðslu ferðakostnaðar sem raktar eru í yfirliti á blaðsíðu 12 í skýrslunni, sem skýrsluhöfundar telja ekki tengda rekstri hjúkrunarheimilis Eirar. Þessar greiðslur munu hafa verið skýrðar með þeim hætti að ekki hafi verið um að ræða greiðslur fyrir lögfræðiaðstoð. Leiði rannsókn í ljós að svo hafi verið verður að ætla að tilefni sé til gera skattrannsóknarstjóra ríkisins aðvart um þann greiðslumáta svo sannreyna megi að greiðslan hafi verið talin fram meðal tekna hjá viðkomandi.

Aðrar athugasemdir sem koma fram í gögnunum þykja ekki tilefni til sakamálarannsóknar, enda verður ekki séð að þær lýsi refsiverðri háttsemi, þótt kunni að finnast aðfinnsluverð,“ segir í bréf ríkissaksóknara.

Greiðslurnar úr þróunarsjóði Eirar sem gerðar voru athugsemdir við í skýrslu Deloitte hljóða upp á 2.671 þúsund krónur. Flestar athugasemdirnar tengjast Sigurði Helga Guðmundssyni, fyrrverandi forstjóra Eirar. Reikningarnir eru vegna dagpeninga, flugferða, gistingar og veitinga erlendis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert