Norðaustan „bakflæði“ óvenjulegt í langan tíma

Snjór á Akureyri
Snjór á Akureyri Skapti Hallgrímsson

Fátt er Íslendingum ofar í huga dags daglega en veðrið, jafnvel þegar það telst hefðbundið. Það ber án efa víða á góma þessa dagana, eins undarlegt og það hefur verið síðustu vikuna.

„Segja má að þessi syrpa hafi hafist á Þorláksmessu og staðið yfir meira og minna síðan. Fyrstu dagana var að vísu nokkuð klassísk norðanátt með snjókomu en síðan 27. desember hefur verið viðvarandi norðanátt sem er, vel að merkja, mjög mild í grunninn; það er mjög sérstakt að hér sé svona hlýtt í norðaustanátt og slydda í byggð bæði fyrir norðan og austan, og meira að segja bara slydda á stundum fyrir vestan,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur við Sunnudagsblað Morgunblaðsins.

Kalda loftinu rutt burt

„Íslendingar eru vanir umhleypingum yfir veturinn með miklum snjó og hvassviðri á köflum en svona langur kafli með norðanaustanátt með þessu sérkennilega milda veðri má teljast óvenjulegt. Það er ekki algengt að hann standi inn Eyjafjörðinn með hláku 3. janúar! Hér fyrir sunnan er svo þriggja til fjögurra stiga hiti og tekur varla upp klakann; í suðaustan átt og rakara lofti er venjulega allt á floti en nú leysir ekki þrátt fyrir hitann. Það segir manni það að til að komi venjulegar vetrarleysingar þarf loft að ná ákveðnum raka en nú er það svo þurrt að það bara blotnar á klakanum en vinnur ekkert á honum.“

Ein aðalástæðan fyrir þessu sérkennilega veðri undanfarið, að sögn Einars, er sú að megninu af því kalda lofti sem venjulega er fyrir norðan Ísland hefur verið rutt burtu af sterkum lægðum sem beina mildu lofti úr suðri.

Veðurkerfin á haus

„Venjulega er norðaustan bál á vetrum knúið áfram af hita sem er á milli Íslands og Grænlands en þegar hlýnar svona mikið til norðurs er norðaustan vindröstin miklu þykkri en venjulega, nær sem sagt hærra upp í lofthjúpinn og er af allt öðru tagi. Ágætur kollegi minn kallaði þetta norðaustan bakflæði! Þessi syrpa er orðin svo löng að segja má að veðurkerfin hér við landið standi á haus.“

Um þessar mundir berst inn til landsins úr norðri mun rakara loft en venjulega í norðaustanátt, svo mikil ísing verður til fjalla. Nefnir Einar, sem dæmi um vandræði vegna þess, mastrið sem féll í Þistilfirði í vikunni. „Víða hefur ísing valdið truflunum í raforkukerfinu, þess mikla skýjaísing sem við köllum hefur herjað á mannvirki alls staðar ofan við 400 metra hæð, til dæmis fraus vindmælir á Hallormsstaðahálsi 27. desember.“

Einar ítrekar að það sé furðulegt að slydda og rigning skuli vera í byggð alveg upp í miðjar hlíðar fjalla, þótt vissulega sé snjókoma ofar. „Það var kominn klakabunki víða á vegi en svo þiðnaði og þá varð fljúgandi hálka. Vetrarástand er hins vegar á fjallvegum og þó að ekki sé alltaf ofankoma bætir stöðugt á vegna þess að éljagangur er og skafrenningur dag eftir dag.“

Framtíðin óljós

Einar spáir því að veðrið verði svipað fram yfir helgi en útlit sé fyrir breytingar um miðja næstu viku. Þá gæti kólnað en hann segir reyndar ekki loku fyrir það skotið að aftur róist síðari hluta vikunnar. „Langtímaspám ber ekki alveg saman; veðrið gæti verið að breytast en samt sem áður er engin trygging fyrir því að það fari ekki í sama farið eftir stutt hlé í næstu viku.“

Mestur kuldi á norðurslóðum er nú á milli Grænlands og Kanada, að sögn Einars. Austan við Grænland er óvenju hlýtt, sem fyrr segir og ekki útlit fyrir að kólni svo mjög að frost nái tveggja stafa tölu hér á landi á næstunni.

Miklum lægðagangi sunnan við Ísland úr vestri fylgir afar óvenjulegt veður víðar en hér. „Segja má að það sé furðuveður víða,“ segir Einar Sveinbjörnsson.

„Það hefur til dæmis rignt gríðarlega mikið á Bretlandseyjum og í suðurhluta Skandinavíu er óvenjuhlýtt; slabb og hreinlega vorástand á sumum skíðasvæðum í Noregi þar sem þeir hafa yfirleitt verið mjög öruggir með snjó. Norðmenn hafa þurft að fresta skíðamótum síðustu daga.“

Einar segir hlýja loftið ná miklu austar nú en venjulega. Kuldinn austan úr Síberíu hafi í fyrravetur leitað vestur eftir Evrópu en nú sé öldin önnur. Hin sterka lægð úr vestri haldi Síberíukuldanum mun austar en áður.

mbl.is
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert