Stúdentar berjast fyrir bættum kjörum

„Stúdentar athugið!“ hrópa fimmtíu strætóskýli á höfuðborgarsvæðinu á vegfarendur en um er að ræða árveknisátak Stúdentaráðs Háskóla Íslands um kjör stúdenta sem hófst í dag. Markmiðið er að vekja athygli á stöðu stúdenta, sem SHÍ segir bága hvernig sem á það er litið, og virkja stúdenta í baráttunni fyrir betri kjörum.

„Við erum hópur sem gleymist oft í umræðunni og erum oft og tíðum ekki nógu dugleg að láta í okkur heyrast en erum að reyna að vekja smá-umtal,“ segir María Rut Kristinsdóttir, formaður SHÍ.

Þrjú þemu voru valin fyrir auglýsingaherferðina: auknar kröfur um námsframvindu sem skilyrði fyrir námslánum hjá Lánasjóði íslenskra  námsmanna, stöðnun frítekjumarks LÍN í 750.000 krónum og niðurskurður til Háskólans.

Auglýsingarnar er varða námsframvindukröfurnar vekja ef til vill mesta athygli en þar er menntamálaráðherra, Illugi Gunnarsson, bókstaflega sakaður um að ljúga að stúdentum.

„Slagurinn sem við stóðum í síðasta sumar snerist um að það átti að hækka námsframvindukröfurnar og Illugi sagði alltaf að það væri eðlilegt að gera sömu kröfur hér og annars staðar á Norðurlöndunum. Það voru hans rök fyrir hækkununum,“ segir María en að óbreyttu munu stúdentar þurfa að sýna fram á 75% námsárangur frá og með næsta hausti til að fá lán.

Hún segir fullyrðingar ráðherrans hins vegar ekki standast skoðun. „Við tókum bara saman nákvæmlega hvernig þetta er á hinum Norðurlöndunum og setjum þetta bara upp svart á hvítu. Fólk getur síðan dæmt um það hvort þetta er sambærilegt en okkur finnst það alls ekki,“ segir hún.

María segir námsframvindukröfurnar á hinum Norðurlöndunum yfirleitt í kringum 50% og þá liggi alveg ljóst fyrir hvaða hluti lánanna er styrkur. „Styrktarkerfið hjá Lánasjóðnum er mjög falið. Illugi hefur talað um að í vaxtaprósentunum sé 30% styrkur frá ríkinu en kerfið virkar í raun þannig að eftir því sem þú ert latari við að borga lánið til baka, því meiri styrk færðu - vegna afskrifta og þessháttar. Þannig að hann er mjög ójafn styrkurinn; hann er í raun þessi vaxtaprósenta og það að lánið deyr með okkur,“ segir hún.

Önnur auglýsingin varðar frítekjumarkið, þ.e. þá upphæð sem stúdentar mega vinna sér inn án þess að námslánin skerðist, en María segir það hafa staðið í stað frá 2009. „Það er 750.000 krónur en samkvæmt verðlagi ætti það að vera 940.000,“ segir hún. „Við höfum barist ötullega fyrir því að það verði hækkað en það hefur ekki gengið neitt.“

Niðurskurður á framlögum til Háskólans er svo þema þriðju auglýsingarinnar en hún spyr stúdenta hvort þeir séu í hópi þeirra 350 nema háskólans sem ríkið greiðir ekki með. „Enn og aftur er ekki verið að greiða með öllum nemendum og þannig séð er hægt að halda því fram að 350 nemendur séu í háskólanum án þess að skólinn fái neinn pening fyrir þá. Þá þarf háskólinn að taka þann pening annars staðar og það bitnar á náminu, kennslunni og gæðum innan skólans,“ segir María. Þetta sé búið að vera viðvarandi vandamál síðan 2008.

María segir að þrátt fyrir að sú ákvörðun hafi verið tekin að einblína á fyrrnefnd þemu í auglýsingaherferðinni sé af mörgu öðru að taka. „Það skiptir ekki máli hvernig á það er litið, kjör stúdenta eru bara hræðileg. Atvinnuhorfur er eitt sem þarf að taka á, húsnæðismálin annað,“ segir hún en margir hafi hvorki efni á að kaupa né leigja. Þá hefur SHÍ verið að skoða ýmsar gjaldskrár er varða hagsmuni stúdenta en á fáum árum hafi skráningargjöldin í HÍ verið hækkuð í 75.000 krónur og stúdentakort í strætó farið úr 15.000 krónum í 42.000 krónur, svo dæmi séu tekin. Á sama tíma hafi kjör stúdenta nánast staðið í stað.

„Kjör okkar eru ekkert að breytast í samræmi við það sem er að gerast í samfélaginu. Það er það sem við erum að benda á. Það eru margir sem geta búið hjá foreldrum sínum lengi og unnið með skóla en svo eru aðrir sem geta það einfaldlega ekki. Þetta snýst líka um ákveðin jafnréttissjónarmið,“ segir María.

Hún segir skipta öllu máli að skapa einingu meðal stúdenta um að berjast fyrir bættum kjörum og bendir á að svo virðist sem einhverjir geri sér t.d. ekki grein fyrir því að breytingarnar á námsframvindukröfunum muni taka gildi, þrátt fyrir bráðabirgðasigur SHÍ í héraðsdómi í ágúst sl.

„Það er verið að semja nýjar úthlutunarreglur núna og það á að birta þær um miðjan febrúar. Og það eru engar blikur á lofti um að okkar hagur muni eitthvað vænkast. Staðan er bara sú að það á að keyra í gegn þessa hækkun námsframvindukröfu alveg sama hvað og við faktíst höldum að þetta snúist ekki endilega um peninga eða niðurskurð, heldur er þetta bara stefnumarkandi ákvörðun stjórnvalda. Og við ætlum að berjast harkalega gegn henni,“ segir María. Ákvörðunin muni hafa áhrif á fjölda námsmanna í Háskóla Íslands og erfitt geti reynst að fá henni hnekkt þegar frá líður.

Nánari upplýsingar um kjarabaráttu stúdenta má finna á studentarathugid.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert