Uppsagnir komi niður á starfsanda

Stjórnarráðshúsið við Lækjartorg
Stjórnarráðshúsið við Lækjartorg Jim Smart

Stéttarfélag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins, FHSS, harmar uppsagnir á starfsfólki sem ráðist er í með samræmdum hætti hjá ráðuneytum í Stjórnarráði Íslands og tilkynnt var um í dag. Því er sérstaklega mótmælt að ekkert samráð hafi verið haft við félagið eða trúnaðarmenn þess.

„Undirrót þeirra er sú fyrirvaralausa ákvörðun, sem tekin var við 2. umræðu um fjárlög 2014, að aðalskrifstofur ráðuneyta sæti 5% aðhaldskröfu á fjárlagaárinu. Með þessu var niðurskurði beint sérstaklega að launa- og rekstrarliðum ráðuneyta,“ segir í yfirlýsingu FHSS.

Þar segir einnig að starfsfólk stjórnarráðsins gegni mikilvægu hlutverki gagnvart ríkisstjórninni og Alþingi. Því sé mikilvægt að skapa þau starfsskilyrði í stjórnarráðinu að sérfræðingar vilji starfa þar og séu í stakk búnir til að takast á við krefjandi verkefni. „Ef stjórnarráðið á að geta keppt um hæft starfsfólk við stofnanir og fyrirtæki á markaði verður það að bjóða starfsmönnum samkeppnishæft starfs- og launaumhverfi og möguleika á starfsþróun og símenntun, en á þessu hefur reynst verulegur misbrestur.“ 

Þá er nefnt að opinberir starfsmenn, þar á meðal félagsmenn FHSS, fengu ekki kjarabætur árið 2009 líkt og aðrir launþegar í landinu og að auki urðu starfsmenn stjórnarráðsins fyrir sérstakri kjaraskerðingu, vegna aðhaldsaðgerða, sem komu til framkvæmdar 1. janúar 2010. „FHSS óttast að þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar og Alþingis muni hafa neikvæð áhrif á starfsanda og starfsemi í ráðuneytunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert