Saka formann kjörnefndar um ósannindi

Horft yfir Kópavog.
Horft yfir Kópavog. mbl.is/Sigurður Bogi

Stuðningsmenn Margrétar Friðriksdóttur, sem sækist eftir fyrsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í vor, segja að Bragi Michaelsson, formaður kjörnefndar fyrir prófkjör flokksins í bænum, hafi orðið uppvís að trúnaðarbresti og ósannindum.

„Honum hefði verið sæmra að biðjast afsökunar en halda því fram að svona vinnubrögð séu í lagi. Það hryggir okkur undirrituð að þurfa að standa í svona orðaskaki opinberlega en það voru aðrir sem kusu að fara í fjölmiðla á þennan hátt með óheilindum svo að ekki verður við unað,“ segir í yfirlýsingu sem þau Hreinn Jónasson
, Brynhildur Gunnarsdóttir, 
Guðjón Gísli Guðmunds
son, Júlíus Hafstein, Aðalsteinn Jónsson, Jóhann Ísberg og Þóra Margrét Þórarinsdóttir hafa sent frá sér.

Málið tengist deilum um nafnbirtingu úr stuðningsmannalista Margrétar, sem stuðningsmennirnir segja hafa verið lekið í DV.

Bragi sagði í samtali við mbl.is á laugardag að hann hefði ekki látið neinum í té upplýsingar. 

Stuðningsmenn Margrétar segja aftur á móti að skýringar Braga, sem koma fram í umræddri frétt, séu haldlitlar. Þau segja að Bragi sé sem formaður kjörnefndar ábyrgur fyrir þeim gögnum sem honum hafi verið afhent persónulega nokkrum mínútum áður en framboðsfrestur hafi runnið út.

Þau saka Braga, sem þau segja að sé yfirlýstur stuðningsmaður Ármanns Kr. Ólafssonar, sem sækist einnig eftir efsta sætinu, um rangfærslur, m.a. með því að hafa sagt að „engin ákvæði eru í reglum Sjálfstæðisflokksins um að meðmælendalistar séu trúnaðarupplýsingar“.

Þau benda á að í 11. gr. laga fulltrúaráðs sjálfstæðismanna í Kópavogi segi: „Störf fulltrúa og Fulltrúaráðs eru algert trúnaðarmál og skal liggja við drengskapur fulltrúanna að halda öllu leyndu, er þar fer fram, og annað er varðar Fulltrúaráðið og flokksfélögin eða starfsemi þeirra, og eigi er ætlast til að vitnist til annarra. Brjóti fulltrúi þessa þagnarskyldu skal víkja honum úr ráðinu. Brjóti fulltrúi að öðru leyti reglugerð þessa verulega, að áliti stjórnar ráðsins, skal fara að á sama hátt og framkvæmir stjórn ráðsins brottvikninguna.“

Þá vísa þau til 10. gr. sömu laga, en þar segir að þegar kosningar til bæjarstjórnar standi fyrir dyrum í Kópavogi skuli sérstök kjörnefnd starfa innan Fulltrúaráðsins.

„Hér er einfaldlega sagt að um öll störf og annað er viðkemur starfsemi Fulltrúaráðs og flokksfélaga ríki algjör trúnaður. Það skilur hvert mannsbarn sem kann að lesa. Kjörnefnd fellur undir það og öll hennar störf. Þar með talin framboðsbréf frambjóðenda. Bragi Mikaelsson, formaður fulltrúaráðsins og formaður kjörnefndarinnar sem stærir sig af áratugastarfi innan flokksins, hlýtur að hafa lesið lög fulltrúaráðsins sem hann stjórnar einhvern tíma á þeim áratugum,“ segir í yfirlýsingu stuðningsmanna Margrétar.

Þeir segja ennfremur að það sé alvarlegt þegar formaður kjörnefndar, sem eigi að gæta hagsmuna frambjóðenda og hlutleysis, fullyrði opinberlega að ákveðnir einstaklingar hafi ekki unnið mikið starf eða stuðlað að góðu andrúmslofti.

„Einstaklingar sem árum saman hafa gegnt formennsku og varaformennsku í félögum og ráðum flokksins í kjördæminu. Setið í stjórnum fulltrúa- og kjördæmisráðs auk flokksráðs og miðstjórnar síðustu ár eða kjördæmabil. Það kallast rógur. Komi slíkar fullyrðingar fram frá formanni kjörnefndar, sem á að gæta hagsmuna frambjóðenda og hlutleysis, verður málið sýnu alvarlegra,“ segir í yfirlýsingunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert