Fundu mannlausan bíl í gangi

Það voru starfsmenn Vegagerðarinnar sem fundu bílinn.
Það voru starfsmenn Vegagerðarinnar sem fundu bílinn. mbl.is/Kristján Kristjánsson

Nú í morgunsárið var tilkynnt um mannlausan bíl í gangi á Laxárdalsheiði við Sauðárkrók. Það voru starfsmenn Vegagerðarinnar, sem voru að ryðja heiðina sem var lokuð vegna ófærðar, sem tilkynntu um bílinn. Fljótlega kom í ljós að bílnum hafði verið stolið á Sauðárkróki í nótt.

Fimm björgunarsveitir úr Austur-Húnavatnssýslu og Skagafirði hafa verið kallaðar út til leitar að ökumanni og hugsanlegum farþegum bifreiðarinnar þar sem ekki er vitað hvort þeir séu í hættu á heiðinni eða hafi fengið far til byggða.

Lögreglan á Sauðárkróki óskar eftir upplýsingum um hvort einhverjir vegfarendur hafi komið fólki til aðstoðar í nótt eða í morgun á þessum slóðum. Þeir sem hafa upplýsingar sem kunna að skipta máli við leitina og rannsókn málsins eru beðnir að hafa samband í síma 893-0709 eða 112.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert