Hefur keyrt leiðina daglega í átta ár

Íslenskur bílstjóri vöruflutningabíls sem lenti í slysi í Sokna í Noregi í gærkvöldi hefur ekið umrædda leið, frá Ósló til Björgvinjar, daglega undanfarin átta ár og ekið vöruflutningabíl í Noregi í 15 ár. Samkvæmt heimildum mbl.is segir hann að slysið megi rekja til ísingar á veginum.

Bílstjórinn vildi ekki tjá sig um slysið þegar eftir því var leitað. Hann var í skýrslutöku hjá lögreglu í nótt en var sleppt undir morgun. Upplýst hefur verið að hann var hvorki undir áhrifum áfengis né vímuefna. Ekkert hefur hins vegar komið fram um það hvort hann hafi ekið of hratt miðað við aðstæður, og er það hluti af rannsókn málsins. Maðurinn var einn í bílnum, á eigin bíl sem hann hefur ekið þessa leið í mörg ár.

Slysið varð með þeim hætti að ökumaður vöruflutningabílsins missti stjórn á honum vegna ísingar og lenti hann þversum á veginum. Þannig var bíllinn og stopp þegar langferðabíl var ekið úr gagnstæðri átt og hafnaði rútan á vöruflutningabílnum. 

Annar íslenskur vöruflutningabílstjóri kom að slysstaðnum, úr sömu átt og rútan, stuttu eftir að slysið varð. Hann náði sjálfur ekki að hemla vegna ísingar og rann bifreið hans því einnig á vöruflutningabílinn. Sökum þess festist hann inni í bíl sínum og gat ekkert gert til að aðstoða slasað fólkið annað en að hringja á lögregluna.

Frétt mbl.is: Þrír létust í slysi í Noregi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert