„Hélt að það heyrði sögunni til“

Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokks.
Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokks. mbl.is

„Ég hef fylgst með stjórnmálum í nærri 30 ár og stundum hefur borið á pólitískri íhlutun þegar kemur að ákæruvaldi eða dómstólum. En ég hélt að það heyrði sögunni til.“

Þetta sagði Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, á Alþingi í dag í umræðum um störf þingsins. Þar gerði hann að umtalsefni ályktun flokksráðsfundar Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs þess efnis að ákærur á hendur fólki sem mótmælti framkvæmdum við nýjan Álftanesveg yrðu afturkallaðar. Spurði hann á hvaða vegferð VG væri.

„Hefur þessi flokkur aldrei heyrt getið um aðskilnað löggjafarvalds, framkvæmdavalds og dómsvalds? Hér hikar flokkurinn ekki við að ganga inn á svið ákæruvaldsins og færa það undir hið pólitíska vald. Það er talað um að það þurfi nýtt millidómstig en það þarf ekki lengur. Pólitískur dómstóll vinstri-grænna hefur tekið að sér að leggja mat á einstök mál og hvort þau eru dómhæf eða ekki,“ sagði þingmaðurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert