Verjandi Breivik á Nordica

Geir Lippestad ásamt fjöldamorðingjanum Anders Behring Breivik.
Geir Lippestad ásamt fjöldamorðingjanum Anders Behring Breivik. AFP

Lögmannafélag Íslands stendur í dag fyrir síðdegisfundi þar sem framsögumaður verður norski lögmaðurinn Geir Lippestad. Hann er þekktastur sem verjandi Anders Behring Breivik sem dæmdur var fyrir fjöldamorðin í Osló og Útey í Noregi 22. júlí 2011. Lippestad er þekktur fyrir að ræða opinskátt um málið og þær ákvarðanir sem hann þurfti að taka sem verjandi Breivik.

Jónas Þór Guðmundsson hæstaréttarlögmaður, formaður Lögmannafélags Íslands, segir það verða fróðlegt að heyra hvað Geir hafi að segja. 

„Ávallt er viðbúið að mál sem fá mikla umfjöllun reyni á þanþol réttarkerfisins. Hætta er á verulegum þrýstingi frá almenningi, stjórnmálamönnum og jafnvel fjölmiðlum um sakfellingu og það fljótt. Erfitt getur verið fyrir dómara að standast slíkan þrýsting og hætta er á að veittur verði afsláttur af grundvallarreglum. Hlutverk verjandans er ávallt að draga allt fram í máli sem verða má skjólstæðingi hans til sýknu eða hagsbóta og gæta réttar hans í hvívetna. En starf verjandans er ekki alltaf auðvelt. Hugsanlegt er að hann verði samsamaður sakborningnum eða spurt verði hvernig hann geti tekið að sér að verja mann sem grunaður er um afbrotið. Jafnvel getur verjandinn þurft að þola svívirðingar í opinberri umræðu eða fengið hótanir. Þá getur reynt verulega á verjandann ef málsmeðferðin fullnægir ekki lögbundnum kröfum. Verjandinn verður að standast álagið sem þessu getur fylgt, jafnvel þótt það geti verið erfitt. Öllu máli skiptir að hvergi sé hvikað frá grundvallarreglum um réttláta málsmeðferð og kröfum réttarríkisins fylgt út í æsar. Það gildir ekki bara í þessu tiltekna máli, heldur öllum sakamálum. Ég geri ráð fyrir að Lippestad muni fjalla um þessi atriði á fundinum.“

Fundurinn verður haldinn á Hilton Hótel Nordica í dag og hefst kl. 16.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert