Stjórn MORFÍs lýsir yfir undrun og andstyggð

Menntaskólinn á Ísafirði
Menntaskólinn á Ísafirði Ljósmynd/Bæjarins besta

Stjórn MORFÍs hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna framkomu keppnisliðs Menntaskólans á Ísafirði gagnvart liði Menntaskólans á Akureyri í keppni liðanna 7. febrúar sl.

í yfirlýsingunni lýsir stjórnin yfir undrun sinni og andstyggð á framkomu keppnisliðsins. Enn fremur segir að sorglegt sé að vettvangur ræðukeppni framhaldsskóla sé óhreinkaður með hátterni sem verði varla öðruvísi lýst en sem kvenfyrirlitningu og kynferðislegu áreiti. Í MORFÍs keppi kynin á jafnréttisgrundvelli, þar á jafnræði að vera í hávegum haft sbr. lög MORFÍs, og eru ekki gerðar minni kröfur um íþróttamannslega framkomu í ræðulistinni en öðrum keppnisíþróttum, jafnvel meiri.

Lögum MORFÍs verði breytt til að ná til slíkra tilvika

Í yfirlýsingunni segir að lög MORFÍs virðist ekki ná til slíkra tilvika sem upp koma og að umboð stjórnar virðist ekki ná til þess að beita lið viðurlögum í samræmi við háttsemi ræðuliðsins. Skólar geti þó að eigin frumkvæði skotið ágreiningsmálum til úrskurðarnefndar til endanlegrar úrlausnar á vettvangi keppninnar. Svo eru keppendur í MORFÍs ekki undanþegnir landslögum.

Þá mun stjórn MORFÍs beita sér fyrir lagabreytingu á næsta aðalfundi mælskukeppni framhaldsskólanna til að koma málum af þessu tagi í viðunandi horf, bæði um tilgang og markmið keppninnar og viðurlög eða refsingar þegar við á með hliðsjón af slíkum reglum hjá öðrum keppnisgreinum.

Sjá yfirlýsinguna í heild: 

Stjórn MORFÍs lýsir undrun sinni og andstyggð á framkomu keppnisliðs Menntaskólans á Ísafirði gagnvart liði Menntaskólans á Akureyri, einkum einum ræðumanni þess, í keppni liðanna 7. febrúar sl. og aðdraganda hennar. Er sorglegt að vettvangur ræðukeppni framhaldsskóla sé óhreinkaður með hátterni sem verður varla öðru vísi lýst en sem kvenfyrirlitningu og kynferðislegu áreiti. Í MORFÍs keppa kynin á jafnréttisgrundvelli, þar á jafnræði að vera í hávegum haft sbr. lög MORFÍs, og eru ekki gerðar minni kröfur um íþróttamannslega framkomu í ræðulistinni en öðrum keppnisíþróttum, jafnvel meiri.
 

Nokkurt réttlæti felst í því að lið Menntaskólans á Ísafirði tapaði stigum hjá dómurum keppninnar vegna framkomu sinnar og beið ósigur í útsláttarkeppni. Lög MORFÍs og umboð stjórnar virðast ekki ná til þess að beita lið viðurlögum fyrir hátterni á borð við framangreint og alls ekki lið sem hafa verið slegin út úr keppni. Rétt er þó að taka fram að skólar geta að eigin frumkvæði skotið ágreiningsmálum til úrskurðarnefndar til endanlegrar úrlausnar á vettvangi keppninnar. Svo eru keppendur í MORFÍs ekki undanþegnir landslögum.
 

Stjórn MORFÍs mun hins vegar beita sér fyrir lagabreytingu á næsta aðalfundi mælskukeppni framhaldsskólanna til að koma málum af þessu tagi í viðunandi horf, bæði um tilgang og markmið keppninnar og viðurlög eða refsingar þegar við á með hliðsjón af slíkum reglum hjá öðrum keppnisgreinum.
 

MORFÍs á að snúast um málefnalega mælsku- og rökræðu og háttvísi. MORFÍs á þar að auki að vera skemmtilegur leikur framhaldsskólanema á landinu og sameiginlegt verkefni sem unnið er í fullri kurteisi og með gagnkvæmri virðingu. Lið MÍ hefur orðið sér til háborinnar skammar og stjórn MORFÍs vonar að allir þátttakendur í keppninni, nú og síðar, dragi nauðsynlegan lærdóm af málinu, svo að kynferðisleg áreitni, kvenfyrirlitning eða önnur ólíðandi framkoma endurtaki sig ekki.

Fyrir hönd stjórnar MORFÍs 2013-2014,
Haukur Einarsson, Gunnhildur Sif Oddsdóttir, Tryggvi Björnsson, Katrín Ósk Ásgeirsdóttir og Jóhann Hinrik Jónsson.

Sjá einnig: Segir engan í liði MÍ hata konur

Sjá einnig: Meint brot á alvarlegum reglum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert