Gagnrýna meirihlutann í húsnæðismálum

Borgarstjórn Reykjavíkur.
Borgarstjórn Reykjavíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur gagnrýndu meirihlutann á fundi í dag fyrir litla uppbyggingu í húsnæðismálum á kjörtímabilinu. 

Hópurinn stækkar og íbúðum fjölgar ekki nóg

Í ræðu sinni gagnrýndi Áslaug María Friðriksdóttir borgarfulltrúi drögin að nýrri eignastefnu félagsíbúða. Áhersla félagsins muni breytast í þá átt að fleiri munu falla undir viðmið velferðarsviðs Reykjavíkurborgar um aðstoð. Segir hún að áætlað sé að með því bætist 3.000 manns í þann hóp sem nýtt gæti úrræði Félagsbústaða. Áætluð fjölgun íbúða er hins vegar langt frá því að geta sinnt þeirri þörf. Telur hún að í stað þess að stækka viðskiptavinahóp Félagsbústaða ætti borgarstjórn að skoða hvernig beita mætti almennum hvötum til að koma uppbyggingu hraðar af stað.
<!--[endif]-->

„Eins og allir vita er þörf fyrir húsnæði gríðarlega mikil, 850 bíða eftir félagslegu húsnæði, 250 eftir þjónustuíbúðum. Uppbygging á þessu kjörtímabili hefur nánast verið engin en aðeins hefur fjölgað um 75 íbúðir Félagsbústaða á tímabilinu.“ sagði Áslaug.
<!--[endif]-->

Vilja almennar aðgerðir til lækkunar húsnæðisverðs

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi sagði í ræðu sinni að rekja mætti húsnæðisskortinn nokkur ár aftur í tímann, nánar tiltekið til áranna 2000-2006. „Á því tímabili var húsnæðisverð í borginni markvisst hækkað og húsnæðisbóla búin til með mikilli takmörkun lóðaframboðs og síðan uppboðs á lóðum. Slíkt leiddi til þess að fjölskyldur neyddust til að kaupa lóðir á uppsprengdu verði og síðar kom í ljós að margar þeirra stóðu ekki undir því. Samfylkingin hafði mikla forystu í þessari óheillavænlegu stefnumótun og ber þannig mikla ábyrgð á hinu háa húsnæðisverði sem margar reykvískar fjölskyldur, og þá einkum ungt fólk, glíma við í dag,“ segir Kjartan. 

Telur Kjartan að nú sé sami flokkur og sömu borgarfulltrúar og framkölluðu okurverð á lóðum með miðstýringu að koma til bjargar með nýjar miðstýrðar patentlausnir. 

„Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja öll góð áform í húsnæðismálum en benda á að best sé að ná saman um almennar aðgerðir til lækkunar húsnæðisverðs enda sé líklegt að slíkar leiðir nýtist flestum,“ sagði Kjartan að lokum. 

Áslaug Friðriksdóttir og Kjartan Magnússon
Áslaug Friðriksdóttir og Kjartan Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert