Ræddi ekki við Pútín

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra
Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég vil fyrst segja um stefnu íslenskra stjórnvalda, sem hv. þingmaður kallaði eftir, að henni hefur verið komið á framfæri við rússnesk stjórnvöld. Hún liggur alveg skýr fyrir. Við fordæmum þá framkomu og lagasetningu sem aðallega er vísað til í umræðunni um stöðu samkynhneigðra í Rússlandi.“

Þetta sagði Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Róbert Marshall, þingflokksformanni Bjartrar framtíðar, en Róbert innti ráðherrann eftir því hvort hann hefði komið á framfæri mótmælum við rússneska ráðamenn vegna framkomu í garð samkynhneigðra í Rússlandi þegar hann sótti Ólympíuleikana í rússnesku borginni Sochi á dögunum. Illugi sagðist hins vegar ekki hafa fengið tækifæri til þess að ræða þau mál við Vladimír Pútín, forseta Rússlands. Hins vegar lægi afstaða ríkisstjórnarinnar og hans sjálfs fyrir og henni hefði hann margoft komið á framfæri.

„Það er ekki aðeins í Rússlandi sem ég tel stöðu samkynhneigðra óásættanlega, það er auðvitað fjöldi ríkja þar sem staða þeirra er óásættanleg. Við tókum til dæmis upp hér á þinginu fyrir ekki svo löngu síðan stjórnmálasamband við Palestínu. Það er hægt að nefna sem dæmi um land þar sem staða samkynhneigðra er mjög slæm. Mjög víða er pottur brotinn hvað varðar stöðu þessa hóps, hjá mörgum þjóðum, því miður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert