Hverju nýfæddu barni fagnað með lófataki í bæjarstjórn

Grundfirðingar fæddir í fyrra, frá vinstri og réttsælis: Ellen Alexandra …
Grundfirðingar fæddir í fyrra, frá vinstri og réttsælis: Ellen Alexandra Tómasdóttir, Jódís Kristín Jónsdóttir, Harpa Emilía Shelagh Björnsdóttir, Benedikt Æsir Markússon, Hersir Steini Fannarsson og Thelma Dís Ásgeirsdóttir. mynd/Tómas Freyr Kristjánsson

Hverju nýfæddu barni í Grundarfirði er fagnað með lófataki við upphaf næsta bæjarstjórnarfundar. Sigurborg Kr. Hannesdóttir, sem settist í bæjarstjórn eftir kosningarnar 2010 sem oddviti L-listans, og varð forseti bæjarstjórnar, lagði þetta til og það hefur mælst vel fyrir að hennar sögn. Á fundum bæjarstjórnar er látinna bæjarbúa líka minnst.

„Eitt af því sem togaði mig inn í sveitarstjórnarmálin var vitund mín um þau verðmæti sem felast í góðu samfélagi. Þau birtast helst þegar fólk stendur saman á miklum gleði- og sorgarstundum, en ég held við getum almennt gert betur við að rækta með okkur þá hugsun að þegar hópur býr á sama stað eru örlög allra að vissu leyti samofin. Þó að við séum ólík, höfum misjafnar skoðanir og eigum ekki endilega samleið í öllum málum tengjumst við og mér finnst að við mættum almennt vera meðvitaðri um að rækta þann þátt samfélagsins meira en verið hefur,“ segir Sigurborg í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins.

Hugmyndina fékk Sigurborg skömmu fyrir fyrsta fund bæjarstjórnar eftir kosningarnar 2010 og siðurinn var tekinn upp strax. „Við fögnum nýjum Grundfirðingum en minnumst líka genginna. Hugsunin er sú að hver einstaklingur er mikilvægur í samfélaginu og þetta eykur vitund okkar um hringrásina; líf slokknar og líf kviknar. Ég var svolítið feimin við þetta fyrst; smeyk um að fólki þætti það skrýtið og kannski þykir einhverjum það enn, en mér finnst fólk almennt kunna að meta þetta.“

Áður en gengið er til dagskrár á fundum rísa bæjarfulltrúar úr sætum þegar genginna er minnst. „Maður finnur samkennd, ekki síst þegar ungir kveðja eða andlát er sviplegt; mér finnst mikilvægt að við sem forystumenn bæjarfélagsins gerum þetta því öll málefni samfélagsins eru meira og minna inni á okkar borði. Svo fögnum við með lófataki þegar nýr Grundfirðingur kemur í heiminn. Eftir að við tókum upp þennan sið gerði ég mér betur grein fyrir því hve íbúar af erlendu bergi brotnir eru duglegir að fjölga Grundfirðingum. Það hefur oft verið nokkuð skondið þegar ég reyni að lesa upp nöfnin!“

Forseti tilkynnir að drengur eða stúlka hafi fæðst og segir frá því hverjir eru foreldrarnir. „Mér finnst þetta mjög skemmtileg venja. Þetta er einn af þessum litlu hlutum sem láta kannski ekki mikið yfir sér, en eru dýrmætir.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert