Utanríkisráðherra talaði um málþóf

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, á …
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, á góðri stund í þinginu. mbl.is/Árni Sæberg

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, var kallaður inn í þingsal á tíunda tímanum í kvöld að beiðni Kristjáns L. Möller, þingmanns Samfylkingarinnar. Gunnar sagðist hafa hlustað á umræðuna annars staðar í þinghúsinu og kallaði umræðuna tilbrigði við málþóf.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar tóku afar illa í þessi orð Gunnars Braga og nefndu nokkrir þeirra að þeir ættu enn eftir að halda sínar fyrstu ræður og varla gæti því um málþóf verið að ræða. Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hafði þá nýlokið við fyrstu ræðu sína. Hún sagðist vera steinhissa á þessum orðum ráðherra en um málefnalega umræðu væri að ræða um stóra og mikla skýrslu.

Valgerður gerði jafnframt athugasemd við það hversu fáir af þeim 34 þingmönnum sem samþykktu kvöldfund væru í þinghúsinu. Það væri fólkið sem samþykkti að hún yrði að flytja ræðu að kvöldi dags. „Hvar er það fólk?“

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sagðist gera athugasemdir við þá lítilsvirðingu sem utanríkisráðherra sýndi Alþingi Íslendinga. Hann flæktist úr salnum við hvert tækifæri þar sem hann þyldi ekki að heyra frá þingmönnum hvernig hann hefði haldið á málinu.

Ekki er gert ráð fyrir að þingfundur standi lengur en til miðnættis. Fimmtán þingmenn eru enn eftir á mælendaskrá og eru fyrri ræður fimmtán mínútur en seinni ræður fimm mínútur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert