„Ég hef þó ekki logið að þinginu“

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. Skjáskot af Althingi.is

Utanríkisráðherra upplýsti á Alþingi í kvöld að hann ætlaði að láta prenta þingsályktunartillögu sína, um að umsóknin um inngöngu í Evrópusambandið yrði dregin til baka, aftur upp þar sem gerðar yrðu breytingar í samræmi við athugasemdir sem komið hefðu fram hjá þingmönnum stjórnarandstöðunnar. Vísaði hann þar til ummæla í greinargerðinni um að einhverjir þingmenn hefðu samþykkt umsókn um inngöngu í Evrópusambandið sumarið 2009 gegn eigin samvisku.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, sagði að betra hefði verið ef Gunnar Bragi hefði tekið tillit til umræddra athugasemda í gær þegar Steingrímur hefði komið þeim á framfæri. Kallaði hann hins vegar eftir afsökunarbeiðni frá utanríkisráðherra vegna málsins. Gunnar Bragi kallaði þá fram í: „Ég hef þó ekki logið að þinginu eins og þú.“ Steingrímur brást illa við þeim ummælum og krafðist þess að ráðherrann væri víttur.

Fleiri þingmenn stjórnarandstöðunnar komu í ræðustól og fóru fram á það að ráðherrann yrði víttur fyrir ummæli sín í garð Steingríms og ítrekuðu ennfremur kröfur um að hann bæðist afsökunar á ummælunum í greinargerðinni. Þá voru einnig ítrekaðar kröfur um að þingfundi yrði slitið eða í það minnsta frestað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert