Fagna ákvörðun ríkisstjórnarinnar

mbl.is/Hjörtur

Félag sjálfstæðismanna í Vestur- og Miðbæ hefur sent frá sér ályktun þar sem fagnað er þeim áformum ríkisstjórnarinnar að draga umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið til baka.

„Félag sjálfstæðismanna í Vestur- og Miðbæ fagnar því að umsókn Íslands í ESB verði dregin til baka. Samfylking og VG hófu aðlögunarferli landsins að ESB án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu og í andstöðu við stóran hluta þjóðar. Vekur því furðu krafa þeirra um að þjóðaratkvæðagreiðsla skuli fara fram nú,“ segir í tilkynningu frá félaginu.

Ennfremur segir að Félag sjálfstæðismanna í Vestur- og Miðbæ telji hagsmuni Íslands fólgna í því að fríverslunarsamningar landsins séu ekki einskorðaðir við afmarkað svæði heldur séu gerðir sem víðast um heim. „Hagvænlegt gæti verið að skoða möguleika þess að hefja svæðisbundið viðskiptasamband við lönd á norðurslóðum svo sem Kanada, Grænland, Færeyjar og Noreg.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert